Húsnæðisskorts gætir víða. Í sumum bæjarfélögum eru engar íbúðir til sölu og annars staðar seljast þær á mettíma. Sérfræðingar eru sammála um að byggja þurfi meira en áhrif faraldursins gætu tafið uppbyggingu.
Mikið ójafnvægi hefur verið á fasteignamarkaði síðan kórónuveirufaraldurinn hófst. Ódýrt lánsfé, launahækkanir og aukinn sparnaður keyrðu eftirspurnina í gang, svo mjög að Seðlabankinn hefur reynt að kæla markaðinn.
Nú er farið að reyna á framboðshliðina og það á ekki aðeins við um höfuðborgarsvæðið.
Uppselt í Þorlákshöfn og hafa ekki undan á Selfossi
Þorlákshöfn er kannski lýsandi dæmi um ástandið á fasteignamarkaðinum því hér er ekki ein íbúðafasteign til sölu.
Hvorki fjölbýli né sérbýli. Nágrannar Ölfusinga slá heldur ekki slöku við, því hvergi á landinu hefur fasteignaverð hækkað meira en á Selfossi. Og þar er verið að byggja mikið og hratt.
„Ástandið er þannig að það selst allt sem er framleitt og kemur á sölu og það er verið að byggja nokkur hundruð nýjar íbúðir og við sjáum ekkert annað en að þær muni fyllast mjög fljótlega jafnóðum og þær eru kláraðar,“ segir Helgi S. Haraldsson, forseti bæjarstjórnar í Áborg.
Meira að segja svæði sem áður voru köld eru orðin heit. „Það er gaman að segja frá því að til dæmis á Eyrarbakka og Stokkseyri er mikil eftirspurn eftir lóðum.“
Engar eignir á skrá á Egilsstöðum
Það er óhætt að segja að fasteignamarkaðurinn á Austurlandi sé seljendum í hag og að kaupendur eigi ekki sjö dagana sæla. Verðið hefur hækkað eins og annars staðar ekki síst á Egilsstöðum.
Mikil eftirspurn er eftir húsnæði á öllu Austurlandi, eignir seljast um leið og þær koma á sölu enda er framboðið hjá fasteignasölum vægast sagt fátæklegt.
„Það eru engar eignir á söluskrá. Nánast engar eignir og það koma tímar þar sem eru engar eignir; bókstaflega engar eignir. Það er ungt fólk sem er að koma austur á land annars staðar af landinu vegna atvinnu og einfaldlega vegna þess að því langar til þess.
Þetta fólk hefur ekki úr neinu að velja. Það er líka eldra fólk sem vill minnka við sig á svæðinu. Það hefur ekki úr neinu að velja,“ segir Sigurður Magnússon, fasteignasali á Egilsstöðum.
Blokkin seldist á tveimur dögum
Ókláruð blokk í Hagahverfinu á Akureyri er kannski dæmi um stöðuna á fasteignamarkaði þar í bæ.
Fasteignasölur auglýstu íbúðir í blokkinni til sölu á miðvikudegi og verktakinn hafði tekið tilboði í allar 33 íbúðirnar á föstudegi. Reyndustu fasteignasalar á Akureyri segjast aldrei hafa upplifað svona tíma fyrr.
Arnar Birgisson, fasteignasali hjá Eignaveri á Akureyri, segist aldrei hafa upplifað jafn mikinn skort. „Undanfarin misseri og sérstaklega undanfarna mánuði hefur verið gríðarlega mikil sala.
Síðustu 12 til 15 mánuði eftir að Seðlabankinn lækkaði vextina er hún búin að vera gríðarleg. Ef að salan er orðin mikil þá myndast skortur, það selst allt hreinlega.“
Sömu sögu er að segja á Vesturlandi. Á Akranesi annar framboð ekki eftirspurn og uppbygging mörg hundruð íbúða í pípunum. Á Ísafirði næst vart að setja hús á sölu því þau seljast strax.
Covid getur framlengt skortinn
Húsnæðismálin voru rædd á fundi Félags viðskipta- og hagfræðinga í dag. Fundarmenn eru sammála um að faraldurinn og efnahagsleg áhrif hans hafi sett markaðinn í ójafnvægi.
Byggja þurfi meira – en faraldurinn gæti tafið þá uppbyggingu. „Það eru ákveðnar vísbendingar á því að það þurfi að byggja til þess að bregðast við þessum sem má kalla breytta ástandi sem að covid hefur skapað, að það hefur orðið alveg gríðarleg eftirspurn.
Hvort að sú eftirspurn muni haldast með sama hætti, við þurfum kannski aðeins að greina gögnin betur til þess að átta okkur á því. En það er alla vega núna þörf á meira húsnæði,“ segir Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika.
Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir hráefnisskort geta tafið nauðsynlega uppbyggingu.
„Við erum að heyra fréttir þess efnis að það sé til dæmis skortur á sementi og það er auðvitað nauðsynlegt til uppbyggingar íbúða.
Þetta að þetta gæti haft áhrif á framboðið ef við horfum til einhvers ára eða mánuða fram í tímann. Þetta er eitt af því sem við erum að sjá áhrifa vegna covid að það eru að eiga sér stað framleiðslubrestir erlendis frá og smitast þá hingað heim.“
Heimild: Ruv.is