Teiknistofan Gláma-Kím varð hlutskörpust í samkeppni Íslandshótela og Minjaverndar vegna nýs hótels í Lækjargötu í Reykjavík. Stefnt er að því að opna hótelið fyrir sumarið 2018.
Hótelið verðu fjögurra stjarna-, 115 herbergja, það verður hæst fimm hæðir auk kjallara. Á jarðhæð er áætlað að hafa verslanir, veitingasal og bar, eldhús og skrifstofur, auk nokkurra hótelherbergja. Í kjallara verði þjónusturými og bílastæði og á 2. – 5. hæð verða hótelherbergi. Á þremur efstu hæðum verða þaksvalir fyrir hótelgesti, þar sem njóta má útsýnis til allra átta.
Brúttóstærð byggingarinnar ofanjarðar verður um 5000m² og brúttóstærð kjallara verður um 1500m² sem er innan þeirra marka sem deiliskipulag reitsins heimilar.