Home Fréttir Í fréttum Strompurinn fær að standa áfram á Akranesi

Strompurinn fær að standa áfram á Akranesi

157
0
Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Byrja á að rífa byggingar og búnað Sementsverksmiðjunnar á Akranesi á þessu ári. Rakel Óskarsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður nefndar um uppbyggingu á Sementsreitnum, segir að verksmiðjan hafi tilfinningalegt gildi fyrir marga en flestir séu sammála um að spennandi tímar séu framundan.

Sementsverksmiðjan á Akranesi var reist á árunum 1955-1958 og hefur lengi verið talin eitt helsta kennileiti Akraneskaupstaðar. Mannvirkin sem stendur til að rífa eru 16 talsins.

<>

Rakel segir að samkvæmt tillögum nefndarinnar sé verið að halda í nokkrar byggingar sem hafi tilfinningalegt gildi fyrir íbúa. „Í tillögunum í dag sem við erum að vinna að í dag erum við að halda í strompinn, við erum að halda í sílóið og pökkunarstöðina og færibandið sem kemur yfir Faxabrautina og í rauninni skrifstofubyggingin stóra, það er það sem við erum að halda í  núna og allt annað verður rifið og svo verður þetta bara endurmetið með tíð og tíma.“

Nýtt aðalskipulag kveður á um að blönduð byggð taki við á sementsreitnum. „Byggðin sem er næst Langasandi verður íbúðabyggð og svo þegar færist nær hafnargarðinum og miðbænum þá verður þetta blönduð byggð, með verslunarþjónustu og léttri atvinnustarfsemi.“ segir Rakel.

Búist við því að niðurrif hefjist á þessu ári. Rakel áætlar að það muni taka 2-3 ár og uppbyggingin sjálf á reitnum þurfi að ráðast af eftirspurn. „Þetta er náttúrulega alveg gríðarlega fallegt svæði til að byggja á, þetta er náttúrulega við Faxaflóann með allt útsýni til suðurs þannig við verðum bara að bíða og sjá, þetta er rosalegt langhlaup. Þetta er hátt í 10 hektara land í miðbænum þannig við erum alveg bjartsýn á að þetta fari vel af stað.“

Fram kom í Skessuhorni fyrir helgi að óskað væri eftir tilboðum í niðurrif bygginga og búnaðar Sementsverksmiðjunnar. Samkvæmt útboði er verktíminn til 20. ágúst 2018. Kynningarfundur verður á verkstað fimmtudaginn 27. júlí næstkomandi kl. 9:30. Tilboðin verða opnuð í ráðhúsi Akraneskaupstaðar þann 30. ágúst næstkomandi.

Heimild: Ruv.is