Í minnisblaði frá Vegagerðinni sem lagt var fram á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar á föstudag kemur fram að hafnarkanturinn hafi sigið jafnt og þétt frá því hann var byggður árið 1999. Ekki sé útlit fyrir að sigið sé að stöðvast og það mælist nú hálfur metri. Ljóst sé að þegar þurfi að grípa til ráðstafana. Vegagerðin áætlar að kostnaður verði um 43 milljónir króna og að ríkið greiði 75% af því. BB.is sagði frá málinu.
Í minnisblaði hafnarstjóra Ísafjarðarbæjar til bæjarráðs segir að hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar hafi „í mörg ár haft miklar áhyggju á sigi Hafskipakants á Flateyri og barist fyrir því að Siglingastofnun og síðar Hafnamálasvið Vegagerðarinnar myndu gera áætlum um hvernig mætti koma í veg fyrir að mannvirkið hyrfi endanlega í sjó.“ Hafnarstjórinn telur að ríkið eigi að bera kostnað af viðgerðinni þar sem sigið megi rekja til hönnunargalla líkt og fram hafi komið í minnisblaði Vegagerðarinnar.
Heimild: Ruv.is