Home Fréttir Í fréttum Hafnarfjarðarbær auglýsingir nú 69 lóðir í nýju og vistvænu íbúðarhverfi í Skarðshlíð

Hafnarfjarðarbær auglýsingir nú 69 lóðir í nýju og vistvænu íbúðarhverfi í Skarðshlíð

131
0

Hafnarfjarðarbær er nú með í auglýsingu 69 lóðir í nýju og vistvænu íbúðarhverfi í Skarðshlíð. Í skipulagi og hönnun á svæðinu, sem liggur sunnan og vestan Ásfjalls og er um 10,35 ha að stærð, er rík áhersla lögð á heildræna sýn, vistvænt skipulag, grænt yfirbragð og fjölbreytt útisvæði. 13 einbýlishúslóðir og 18 parhúsalóðir eru til úthlutunar og geta einungis einstaklingar sótt um þessar lóðir. Samhliða er óskað eftir tilboðum lögaðila í 26 tvíbýlishúsalóðir og 12 raðhúsalóðir.

<>

Eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði í Hafnarfirði hefur vaxið gríðarlega síðustu misseri og er nú svo komið að íbúar eru orðnir rúmlega 29.000 talsins. Breytingar á skipulagi í Hafnarfirði og uppbygging innviða hefur miðað að því að svara þessari auknu eftirspurn eftir húsnæði. Áfangi tvö í nýju íbúðarhverfi í Skarðshlíð hefur undirgengist töluverðar skipulagsbreytingar síðustu mánuði og eru 69 lóðir á svæðinu nú komnar í auglýsingu.

Gert er ráð fyrir að lóðirnar verði tilbúnar til afhendingar  og framkvæmda síðla hausts 2017. Dregið var úr fjölda einbýlishúsalóða í hverfinu og þess í stað fjölgað tvíbýli, þríbýli og fjórbýli. Íbúðum var þannig fjölgað úr 133 í 154 til að svara vaxandi þörf á markaði. Húsagötum var breytt í vistgötur sem þýðir m.a. að unnið er ítarlega með nýtingu gatnarýmis og ásýnd auk þess sem komið er fyrir djúpgámum í stað sorptunna við hvert hús.

Vistgötur hafa líka þann eiginleika að að bæta hljóðvist og eru til þess fallnar að efla samfélagskennd eða félagslega samheldni í hverfum með því að skapa rými fyrir íbúa sem býður upp á félagsleg samskipti. Ákveðnar lóðir hafa þegar verið teknar frá fyrir nýtt íbúarekið leigufélag í Hafnarfirði sem hefur það að markmiði að lækka leiguverð, draga úr yfirbyggingu og auka aðkomu og þátttöku íbúa sjálfra.

Hvatinn á bak við verkefni er að bregðast við þörf á öruggu leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði. Allir áhugasamir geta heimsótt hverfið og séð þar merkingar fyrir hverja og eina lóð.

Úthlutunarlóðir fyrir einstaklinga og tilboðslóðir fyrir lögaðila

13 einbýlishúslóðir og 18 parhúsalóðir eru til úthlutunar og geta einungis einstaklingar sótt um þessar lóðir. Vill Hafnarfjarðarbær með þessari ákvörðun tryggja að lóðir fari í hendur einstaklinga sem langar að byggja sér sitt eigið en ekki í hendur leigufélaga og verktaka. Dregið verður í númeraröð úr gildum umsóknum og markar númer jafnframt röðun í vali á lóðum. Tveir einstaklingar þurfa að sækja um parhúsalóð og teljast Hjón og sambúðarfólk sem einn einstaklingur.

Samhliða er óskað eftir tilboðum lögaðila í 26 tvíbýlishúsalóðir og 12 raðhúsalóðir. Búið er að marka lágmarksverð í lóðirnar og teljast tilboð undir lágmarksverði ógild. Frestur til tilboða og umsókna er 15. ágúst 2017.

Allar upplýsingar um tilboðslóðir og lóðir til umsóknar er að finna HÉR

Allir áhugasamir geta heimsótt hverfið og séð þar viðeigandi lóðamerkingar.

Heimild: Hafnarfjordur.is