Home Fréttir Í fréttum Undirbúa Dýrafjarðargöng í Arnarfirði

Undirbúa Dýrafjarðargöng í Arnarfirði

195
0
Mynd: Skjáskot af ruv.is
Um fimmtíu manns munu setjast að í Arnarfirði og starfa við gerð Dýrafjarðarganga. Þar er undirbúningur hafinn og gert er ráð fyrir að fyrsta sprengingin verði um miðjan ágúst.

Verktakarnir Suðurverk og Metrostav frá Tékklandi áttu lægsta tilboðið í Dýrafjarðargöng. Eysteinn Jóhann Dofrason er byggingatæknifræðingur hjá Suðurverki og vinnur að undirbúningi í Arnarfirði: „Við erum að reisa vinnubúðir, 1200 fermetra verkstæðis- og geymslurými fyrir sprengiefni og slíkt við gagnamunnann. Svo verður byrjað að reisa steypustöð hérna í lok mánaðarins. Og skrifstofur líka.“ Um fimmtíu manns koma til með að starfa við gangagerðina.

<>

Á næstu dögum verður mokað fyrir gangamunna og stendur til að fyrsta sprengingin verði um miðjan ágúst. Fagna átti fyrstu skóflustungu um miðjan maí en því var aflýst vegna ófærðar.

Göngin leysa af hólmi veg um Hrafnseyrarheiði, sem nær 550 metra hæð, og er jafnan ófær í marga mánuði á ári þar sem honum er ekki haldið opnum. Ásamt endurbótum á Dynjandisheiði sem er heldur ekki mokaður yfir háveturinn verður til heilsársvegur milli sunnan- og norðanverðra Vestfjarða. Stefnt er að opnun ganganna árið 2020.

Athafnasvæði Dýrafjarðarganga er á milli heiðanna tveggja í botni Arnarfjarðar og til stendur að moka að athafnasvæðinu einu sinni í mánuði yfir vetrarmánuðina. Starfsmenn komast jafnframt þangað með báti frá Bíldudal: „Tékkarnir verða á róli sem er tveir mánuðir í vinnu og einn í frí og við ætlum að hafa okkar menn í hálfan mánuð og hálfan mánuð.“

Eysteinn hefur ekki áhyggjur af einangrun í vinnubúðunum að vetri: „Nei, nei, þetta er bara Ísland, við hljótum að lifa það af.“

Heimild: Ruv.is