Home Fréttir Í fréttum Verktaki þarf að borga aðflutningsgjöld aftur sem hann var búinn að greiða

Verktaki þarf að borga aðflutningsgjöld aftur sem hann var búinn að greiða

298
0

Verktakafyrirtæki þarf aftur að greiða aðflutningsgjöld af búnaði sem það hafði áður greitt slík gjöld af. Þetta er niðurstaða yfirskattanefndar.

<>

Árið 2012 vann fyrirtækið að verkefni í Þórshöfn í Færeyjum og flutti þangað meðal annars vinnustaðagáma, girðingar, byggingarkrana, steypumót, undirsláttarefni og vinnulyftur. Þegar verkinu lauk var búnaðurinn fluttur aftur til landsins og vildi Tollstjóri þá að aðflutningsgjöld yrðu greidd af búnaðinum.

Eigendur fyrirtækisins vildu ekki una því og bentu á að þeir hefðu nú þegar greitt öll slík gjöld þegar tækin og tólin voru flutt hingað til lands í upphafi. Töldu þeir að ákvæði reglugerðar um ýmis tollfríðindi, þar sem kveðið er á um ársfrest vegna endursendra vara, væri í andstöðu við tollalög. Um tvísköttun væri að ræði sem teldist ólögmæt.

Í niðurstöðu yfirskattanefndar var bent á að tímafrestir til endursendingar vöru án aðflutningsgjalda hefðu lengi tíðkast. Þá féllst nefndin ekki á að reglugerð ráðherra bryti í bága við lögin sem hún sækir lagastoð sína í.

Þá var ekki fallist á þau rök fyrirtækisins að umræddum vörum væri ætlaður langur endingartími. Þau væru notuð árum saman og eðli málsins samkvæmt geti byggingaframkvæmdir tekið nokkur ár. Nefndin taldi að ef fallist yrði á rök verktakans yrði ársfrests undanþágan allt að því marklaus. Kröfum hans var því hafnað og þarf hann að borga toll af tækjunum á ný.

Heimild: Visir.is