Home Fréttir Í fréttum Kennarar Iðnskólans í Hafnarfirði uggandi

Kennarar Iðnskólans í Hafnarfirði uggandi

76
0
Iðnskólinn í Hafnarfirði
Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði ætla að krefjast staðfestingar strax eftir helgi að iðnnám verði áfram öflugt í bænum þótt Iðnskólinn í Hafnarfirði verði lagður niður og starfsemin hans renni inn í Tækniskólann ehf. Kennurum í Iðnskólanum í Hafnarfirði líst ekki á áformin.

 

<>

Kennurum í Iðnskólanum í Hafnarfirði, sem verður öllum sagt upp þegar skólinn rennur inn í Tækniskólann, líst ekki vel á ákvörðunina sem kynnt var í gær. Þetta segir Sæmundur Stefánsson formaður Kennarafélags Iðnskólans í Hafnarfirði.

„Kennurum líst nú ekki nægilega vel á þetta því þeir eru náttúrulega settir í óvissu um sína framtíð. Og það er ljóst að okkur verður öllum sagt upp störfum. Við erum ríkisrekinn skóli í þessu sameiningarferli,“ segir Sæmundur. Kennurum í Tækniskólanum verður ekki sagt upp, því skólinn er einkahlutafélag, en í rauninni er verið að leggja Iðnskólanum niður með þessari ákvörðun menntamálaráðherra. Stækkaður Tækniskóli tekur til starfa 1. ágúst og var starfsliði beggja skóla kynnt niðurstaðan á fundum í gær. Sæmundur segir mörg óvissuatriði til dæmis hverjum verður boðin endurráðning og hvort þá þeir kenni áfram í Hafnarfirði eða inn í Reykjavík. „Og svo vekur það athygli líka, það kom fram í gær að þegar að kemur að endurröðun að þá muni kennarar beggja skóla standa jafnfætis eða jafnt að vígi. Þetta finnst okkur hljóma, við svona áttum okkur ekki alveg á þessu í bili.“

Iðnskólinn í Hafnarfirði á sér tæplega 90 ára sögu, segir Sæmundur, og smæð hans, 450 nemendur á móti 1800 nemendum í Tækniskólanum, hafi einmitt gert hann eftirsóttan af mörgum nemendum. „Og mér og held ég öllum Hafnfirðingum finnst það skipta máli að þessi skóli sé áfram hér starfandi og í boði.“

Kennarar eiga í næsta viku fundi með skólameistara Tækniskólans, lögfræðingi Kennarasambandsins og fleirum.

Bæjarfulltrúum brugðið við tíðindin

Rósa Guðbjartsdóttir Rósa Guðbjartsdóttir formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar segir að bæjaryfirvöld muni krefjast staðfestingar á því strax eftir helgi að iðnnám verði áfram öflugt í bænum. Rósa segir að bæjaryfirvöld hafi vissulega vitað af vinnuhópi sem kannaði sameiningu enda hafi fulltrúi þeirra átt sæti í honum. Hópurinn lagði til sameiningu við menntamálaráðherra í vikunni og hann ákvað fara að henni. Ráðherra tilkynnti niðurstöðuna í gær.

„Okkur var verulega brugðið að fá þessar fréttir skyndilega í fjölmiðlum í gær,“ segir Rósa. „Ég á eftir að sjá bara hvað í þessu felst og við. Við vitum að iðnnám hefur átt undir högg að sækja í samfélaginu öllu og okkur er öllum kappsmál að styrkja það og efla. Og ég bíð með frekari yfirlýsingar þangað til ég sé hvernig útfærslan á að vera en eins og ég segi þá munum við berjast fyrir því og munum fara í það strax eftir helgi að krefjast þess að fá staðfestingu á því að iðnnám með þeim hætti eða eins öflugt og það hefur verið hér í Hafnarfirði til áratuga að það verði áfram hér til lengri framtíðar.“