Home Fréttir Í fréttum Seljendur fasteigna bíða eftir greiðslum

Seljendur fasteigna bíða eftir greiðslum

53
0
Seljendur fasteigna eru orðnir langeygir eftir greiðslum. Formaður Félags fasteignasala segir að áhrif af verkfalli lögfræðinga hjá Sýslumanni höfuðborgarsvæðisins séu að koma í ljós.

Fasteignasalar hafa boðað til fundar eftir helgi til að fjalla um stöðuna, þar sem væntanlega verður skorað á stjórnvöld að taka á vandanum.

<>

Verkfall lögfræðinga hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu hefur staðið frá 7. apríl, en á þeim tíma hefur ekki verið hægt að þinglýsa skjölum, svo sem kaupsamningum. Ingibjörg Þórðardóttir, formaður Félags fasteignasala, segir að áhrifanna sé farið að gæta. „Það er farið að reyna ansi mikið á það að fólki þurfi á útborgunargreiðslum að halda, jafnvel í einhverja aðra hluti en fasteignaviðskipti. Og þeir sem ætla að nota peninga úr einni fasteign upp í aðra fasteign, þeir eru komnir jafnvel í þrönga stöðu.“

Þá geti ný lán sem áttu að fara til greiðslu eldri lána kostað seljendur meira. Hún segir að fólk hafi sýnt aðgerðunum skilning. „En það má gera ráð fyrir því núna upp úr mánaðamótum, ef ekkert verður enn að gert, þá muni þessi stífla jafnvel bresta, því það er talað um að það séu jafnvel 5000 skjöl sem þegar bíða þinglýsingar og eftir því sem lengra líður á verkfallstímann þá munu skjölin verða fleiri og það mun taka jafnvel margar vikur að vinna úr þessum stafla sem hrúgast hefur upp hjá embættinu,“ segir Ingibjörg.

Skora á stjórnvöld að semja

Hún veltir fyrir sér hvort eðlilegra hefði verið að verkfallsaðgerðir hefðu færst á milli sýslumannsembætta, en bitnuðu ekki bara á höfuðborgarsvæðinu. Fasteignasalar ætla að ráða ráðum sínum. „Við erum farin að hafa svo miklar áhyggjur af þessu að við höfum boðað til félagsfundar á þriðjudaginn og menn greini stöðuna og hvað sé til ráða. Og jafnframt auðvitað að skora á stjórnvöld að taka til hendinni og gera eitthvað í þessum efnum, vonandi bara semja.“

Takist það ekki eigi stjórnvöld þann kost að setja lög á verkfallið, því ekki gangi að lama samfélagið með þessum hætti vikum saman.

Heimild: Rúv.is