Home Fréttir Í fréttum Fyrstu tillögur um legu Borgarlínu kynntar

Fyrstu tillögur um legu Borgarlínu kynntar

236
0
Borgarlína. Við Smáralind. Drög að biðstöð.

Þáttaskil verða í undirbúningi fyrirhugaðrar Borgarlínu, nýs hágæða samgöngukerfis sem fá mun sérrými í gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins, þegar vinnslutillögur um breytingar á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til 2040 og aðalskipulagi sveitarfélaganna sex sem standa að Borgarlínu verða kynntar á sameiginlegum fundi sveitarfélaganna í Salnum í dag. Þar verða kynntar tillögur um staðsetningu línuleiða og helstu stöðva Borgarlínu og skilgreind viðmið um uppbyggingu á áhrifasvæðum línunnar en gert er ráð fyrir að Borgarlínan verði allt að 57 km að lengd og að verkefnið verði áfangaskipt.

<>

Þær vinnslutillögur sem nú eru í forkynningu byggja á valkostagreiningu dönsku verkfræðistofunnar COWI. Í þeirri vinnu var horft til þess hvernig höfuðborgarsvæðið muni þróast næstu ártugi. Um er að ræða tillögu að heildarneti innviða sem byggt verði upp í áföngum. Stefnt er að því að endanlegar tillögur um legu línunnar liggi fyrir síðsumars og að undirbúningi fyrsta áfanga ljúki í byrjun árs 2018.

Sjá áfangaskýrslu um greiningu á línum Borgarlínu

Kostnaður við innviði Borgarlínu er áætlaður um 1,10-1,15 milljarður króna á hvern kílómetra á verðlagi í janúar 2017 og því gæti kostnaður við heildarnetið, sem byggt verður upp í áföngum, numið 63 til 70 milljörðum króna.

Fyrstu tillögur um Borgarlínu

FyrstutillogurBorgarlinu

Hvers vegna?

Áætlað er að á næstu 25 árum fjölgi íbúum höfuðborgarsvæðisins um hátt í 40% eða um 70.000 og verði þá orðnir tæplega 300 þúsund. Þegar við bætist vaxandi straumur ferðamanna er ljóst að það stefnir í stóraukna umferð. Haldist ferðavenjur óbreyttar mun þessi fjölgun valda erfiðleikum í samgöngum og auknum töfum í umferðinni, þrátt fyrir gríðarlegar fjárfestingar í nýjum umferðarmannvirkjum. Áætlað er að ferðatími geti að óbreyttu aukist um allt að 65% og umferðatafir um rúmlega 80%.

Markmið sveitarfélaganna með Borgarlínu er að auka vægi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Það mun ekki gerast án þess að byggðir verði upp innviðir fyrir afkastamiklar almenningssamgöngur. Um Borgarlínu gilda sömu lögmál og við skipulag innviða annarra samgangna, s.s. stofnvega. Horfa þarf áratugi fram í tímann þannig að þeir áfangar sem byggðir verða upp myndi á endanum eðlilega heild. Ljóst er að umferðamál höfuðborgarsvæðisins verða ekki leyst með annaðhvort öflugra gatnakerfi eða almenningssamgöngum. Því þarf samspil þessara tveggja lausna að koma til og þar munu almenningssamgöngur gegna mikilvægu hlutverki fyrir íbúa svæðisins. Ein helsta áskorun borgarumhverfis framtíðarinnar er plássleysi og sökum þess munu fyrirsjáanlegar tækniframfarir með sjálfkeyrandi bílum aldrei geta leyst af hólmi afkastamiklar almenningssamgöngur.

Umhverfisvænn og fljótlegur ferðamáti

Borgarlína er afrakstur umfangsmikils og náins samstarfs sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu undanfarin misseri og að baki liggur nákvæm greining á framtíð samgangna á höfuðborgarsvæðinu í samvinnu við Vegagerðina.

Vagnar Borgarlínu verða rafknúnir og munu ferðast í sérrýmum og fá forgang á umferðarljósum. Það eykur áreiðanleika og hraða, þannig að ferðatími verði samkeppnishæfari við aðra ferðamáta. Fyrirhuguð Borgarlína er því hagkvæm og vistvæn leið til að auka flutningsgetu á milli sveitarfélaganna og gera þeim kleift að mæta tæplega 40% fjölgun íbúa og fjölgun ferðamanna fram til ársins 2040 án þess að álag á stofnvegakerfið aukist að sama skapi. Gert er ráð fyrir mikilli ferðatíðni sem geti farið í 5-7 mínútur á annatímum. Lögð verður áhersla á vandaðar, yfirbyggðar biðstöðvar, með farmiðasjálfsölum og upplýsingaskiltum sem sýna í rauntíma hvenær næsti vagn kemur. Vagnarnir munu stöðva þétt við brautarpalla sem verða í sömu hæð og gólf vagnanna sem auðveldar aðgengi fyrir alla.

Upphaf skipulagsferlis Borgarlínu

Þróun Borgarlínu er í samræmi við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins frá 2015 en samkomulag um undirbúning línunnar var undirritað af borgarstjóra og bæjarstjórum hinna sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu í desember 2016. Stefnt er að því að endanlegar tillögur um legu Borgarlínu liggi fyrir síðsumars 2017. Kynningin í Salnum í dag  markar þannig tímamót nú þegar almenningur og hagsmunaaðilar geta kynnt sér drög að skipulagstillögum Borgarlínu en frestur til að koma með ábendingar eða athugasemdir er til og með 20. júní 2017.  Athugasemdir og ábendingar verða að vera skriflegar og þurfa að berast skrifstofu SSH eða á skrifstofu viðkomandi sveitarfélags.

Heimild: Borgarlina.is