Home Fréttir Í fréttum Ný hótel verða byggð í austurhluta Reykjavíkur

Ný hótel verða byggð í austurhluta Reykjavíkur

291
0
Teikn­ing/​Batte­ríið arki­tekt­ar
Fjöldi hótela rís í Reykjavík á næstu árum, en þau verða einkum við Suðurlandsbraut og Grensás. Framkvæmdastjóri Icelandair hótela segir það henta greininni vel.

Reykjavíkurborg gekkst fyrir fundi um uppbyggingu innviða og atvinnuhúsnæðis í Ráðhúsinu í morgun. Borgarstjóri nefndi þar nýtt kvikmyndaþorp sem rís á lóð gömlu áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi, þar sem nokkur fyrirtæki koma að. Þar verður hátt til lofts og vítt til veggja. Skapandi greinar ryðji sér til rúms á Grandagarði og þekkingartengdar greinar í Vatnsmýri og við Háskóla Íslands. Þá verði víða atvinnurekstur á neðri hæðum húsa, en íbúðir á þeim efri. Fjöldi hótela hefur risið í borginni undanfarin misseri og í ár og fleiri bætst við.

<>

„En óneitanlega mjög mikil hóteluppbygging upp með Suðurlandsbraut og við Grensásveg og víðar, framundan. Í stuttu máli erum við stödd á einhverju mesta uppbyggingarskeiði í sögu borgarinnar,“ segir Dagur B. Eggertsson.

Magnea Þórey Hjálmarsdóttir framkvæmdastjóri Icelandair hótela fjallaði um uppbyggingu hótela í sátt við nærumhverfið og segir henta greininni vel að byggja upp austan við miðborgina.

„Það er ágætis þróun út frá hótelunum og ef horft er til annarra borga og borgaryfirvöld eru með undirliggjandi stefnu. Þau vita hvert þau vilja fara með þetta og þau hafa vandað sig við þetta og það hefur verið einstaklega ánægjulegt að vinna með þeim.“

Fyrirhugaða Borgarlínu bar einnig á góma. Verkfræðingur hjá Mannviti segir að unnið sé að greiningu. Ekki liggi fyrir hvort notast verði við vagna eða léttlestir, það sé í raun aukaatriði, aðalatriðið sé að umferðin muni ganga greiðar og ferðir verði tíðar. Snúið sé að hanna slíkt inni í byggð.

„Já það er ansi snúið og það er stórt verkefni fyrir höndum, það er mikið flækjustig. Það er samt sem áður töluvert rými í gatnakerfinu okkar eins og það er í dag þannig að þetta er allt saman alveg gerlegt,“ segir Ólöf Kristjánsdóttir verkfræðingur hjá Mannviti.

Heimild: Ruv.is