Home Fréttir Í fréttum Segir galið að selja mannvirki á flugvellinum

Segir galið að selja mannvirki á flugvellinum

94
0
Ef fresta á áformum um hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu er ljóst að fjármálaáætlun er vanfjármögnuð. Þetta segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna í fjárlaganefnd. Hún segir galið ef meirihlutinn ætli að selja mannvirkin á Keflavíkurflugvelli líkt og lagt sé til.

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára er stærsta málið sem stjórnin þarf að ná í gegnum þingið áður en því verður frestað. Hún hefur verið til umfjöllunar í öllum nefndum þingsins síðan í byrjun apríl en nú hefur meirihluti fjárlaganefndar afgreitt hana úr nefndinni og verður hún tekin til síðari umræðu á Alþingi í næstu viku. Meirhlutinn leggur meðal annars til að hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu verði frestað og taki ekki gildi fyrr en í fyrsta lagi 2019. Í staðinn verði komugjöld skoðuð sem skila myndu mun minni fjármunum til ríkisins en hækkun virðisaukaskatts.

<>

„Stóru tíðindin eru þau að með því að falla frá eða draga þann tíma sem þau ætluðu virðisaukaskattinum á ferðaþjónustuna að taka gildi, þá má segja að fjármálaáætlunin sé í raun vanfjármögnuð,“ segir Bjarkey.

Þá vill meirihlutinn kanna kosti þess að stjórn verði sett yfir Landspítalann og hvort grundvöllur sé fyrir því að selja mannvirkin á Keflavíkurflugvelli, þar með talin Leifsstöð. „Ég hef verið mjög mótfallin því,“ segir Bjarkey. „Mér finnst það algjörlega galið bara að selja þessa innviði og tel enga ástæðu til þess að einkavæða eina alþjóðaflugvöllinn okkar eða hvað á ég að segja, einu formlegu leiðina inn í landið, mér finnst það bara alveg út í hött.“

Haraldur Benediktsson formaður fjárlaganefndar sagði í tíufréttum RÚV í gærkvöld að hann legði áherslu á að rætt væri um ríkisfjármálaáætlun en ekki fjárlög. Því fjalli nefndin um hana með þeim hætti. Reikna má með því að nokkur álit berist frá stjórnarandstöðuflokkunum sem sæti eigi í fjárlaganefnd.

Heimild: Ruv.is