Home Fréttir Í fréttum Samherji byggir nýtt fiskvinnsluhús á Dalvík

Samherji byggir nýtt fiskvinnsluhús á Dalvík

231
0
Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Undirritaður hefur verið samningur um lóð fyrir nýtt fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík. Áætlaður kostnaður er þrír og hálfur milljarður króna. Húsið á að vera tilbúið í lok árs 2018.

Samningur Samherja við Dalvíkurbyggð er um lóð á uppfyllingu við Dalvíkurhöfn sem gerð var fyrir um 30 árum. Til viðbótar mun Dalvíkurbyggð byggja viðlegukant og bæta löndunaraðstöðu við nýtt fiskvinnsluhús.

<>

Áætlaður kostnaður 3,5 milljarðar

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir þessa ákvörðun eiga sér langan aðdraganda. „Við seldum eignir – við seldum hlutabréf sem við áttum í Olís. Það var búið að taka þá ákvörðun að þegar við myndum selja það þá myndum við klára þetta mál hér á Dalvík. Ég áætla að nýtt fiskvinnsluhús, með þeim tækjabúnaði sem við erum að horfa á, sé um þrír og hálfur milljarður.“

Tækifæri fyrir íslenskan tækniiðnað

Og hann segir að hús eins og þetta sé ekki bara bygging. Þarna verði mikill tækjabúnaður unninn í samstarfi við íslensk fyrirtæki. „Og ég reikna með að þetta verði ekki bara til að framleiða fisk til útflutnings. Heldur á ég von á því að íslensk iðnfyrirtæki muni nota þetta til að sýna þá getu sína og flytja þá þekkingu út um allan heim.“

Stór áfangi fyrir Dalvíkurbyggð

Bjarni Th Bjarnason, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, segir að uppbygging af þessu tagi hafi mikla þýðingu fyrir samfélagið. „Þetta er stór áfangi fyrir Samherja og mjög stór áfangi fyrir bæjarfélagið. Og við fögnum þessu auðvitað og gleðjumst.“

Húsið verði tilbúið í lok árs 2018

„Miðað við þá vinnu sem við höfum lagt í þetta, þá er ég að vonast til þess að við getum klárað þetta í lok árs 2018,“ segir Þorsteinn Már. „Ég reikna með að framkvæmdir hefjist að einhverju leiti á þessu ári.“

Heimild: Ruv.is