Home Fréttir Í fréttum Telur ríkið þurfa að fjármagna Vaðlaheiðargöng

Telur ríkið þurfa að fjármagna Vaðlaheiðargöng

65
0
Ríkisábyrgðarsjóður telur að besta leiðin til að ná sem mestu af þeim fjármunum sem ríkissjóður hefur lagt í Vaðlaheiðargöng sé að framkvæmdaláni verði breytt í langtímalán og fjármagna þannig allt verkefnið til enda. Staðan á láninu vegna ganganna verður 16,6 milljarðar ef miðað er við að þau verði opnuð eftir í lok næsta árs eða byrjun árs 2019.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn sem Ríkisábyrgðarsjóður veitti vegna viðbótarláns til Vaðlaheiðarganga upp á 4,7 milljarða . Ríkisstjórnin samþykkti að veita lánið á fundi sínum í byrjun síðasta mánaðar.

<>

Til þess að lánið gangi í gegn þarf að breyta lögum og var frumvarpi þess efnis dreift á Alþingi í gær.   Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að endurgreiðslutími langtímalána verði engdur um níu ár – úr 24 árum í 33 ár. Þá telur fjármálaráðherra að svo lengi sem áætlanir um greiðsluvilja, gjaldskrá og umferðaspá standist muni ríkissjóður að öllum líkindum fá aftur viðbótarfjármögnunina. Óvissa hafi hins vegar aukist um hversu mikill hluti af upphaflegri lánveitingu ríkisins fáist endurgreiddur með auknum kostnaði.

Í umsögn Ríkisábyrgðarsjóðs er rifjað upp að upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að framkvæmdalán ríkisins yrði að fullu fjármagnað af einkaaðilum þegar göngin hefðu verið í rekstri í 2 til 3 ár.

Ríkisábyrgðarsjóður efast um að það geti gengið eftir. Til að mynda hafi verið lagt upp með að fjármögnunartími ganganna yrði ekki lengri en þrjátíu ár en afar litlar líkur séu á að það takist eða átta prósent. Líklegra sé að síðasta greiðsla félli til á árunum 2050 til 2060 miðað við þetta.

Það myndi þýða allt að helmingi lengri innheimtu gjalda en í Hvalfjarðargöngunum. „Ólíklegt er að unnt verði að finna lánveitanda sem er tilbúinn að lána í stakt verkefni til svo langs tíma,“ segir sjóðurinn.  Áhættan sé einfaldlega of mikil og lítið þurfi út af bregða til þess að greiðslufall eigi sér stað – líkurnar á því eru sagðar 22 prósent.

Ríkisábyrgðarsjóður segir að til þess að ríkissjóður fái til baka þá fjármuni sem hann hafi lagt í verkið  sé best að núverandi framkvæmdaláni verði breytt í langtímalán og allt verkefnið þannig fjármagnað af ríkissjóði til enda. Hann sé líka sá aðili sem fái langbestu kjörin á innlendum lánamarkaði.

Með þessari breytingu myndu líkurnar á að göngin verði gjaldfrjáls árið 2047 breytast úr 8 prósentum í 79 prósent.  Og líkurnar á greiðslufalli færu úr 22 prósentum í hverfandi.

Sjóðurinn rifjar engu að síður upp í þessu samhengi að ákvörðun um gerð Vaðlaheiðarganga hafi allan tímann grundvallast á því að ríkissjóður fengi aftur allt það fjármagn sem hann hefði sett í verkið . Verðskrá og innheimta veggjald verði því að byggja á þeirri grundvallarforsendu.

Þá telur sjóðurinn það áhyggjuefni að ríkissjóður skuli nánast ekkert hafa um það að segja hvernig gjaldskrá ganganna verði háttað.  Til að bregðast við þessu leggur sjóðurinn til að ríkið geri jafnvel kröfu um að viðbótarlánið verði ekki veitt nema ríkissjóður eignist meirihluta í félaginu VHG ehf.  Ekkert slíkt er þó að finna í frumvarpinu um viðbótalánið.

Þá er það gagnrýnt að fimm árum eftir að  upphaflegt lán var veitt skuli ekki enn liggja fyrir endanleg ákvörðun um hvernig staðið verði að innheimtu veggjalds um göngin.

Að lokum tekur Ríkisábyrgðarsjóður af öll tvímæli um að Vaðlaheiðargöng sé ekki einkaframkvæmd – því næst sem öll áhættan við fjármögnun þeirra falli á ríkið.  Þá muni lánið vegna ganganna standa í 16,6 milljörðum þegar þau verða opnuð í lok árs 2018 eða byrjun árs 2019.

Heimild: Ruv.is