Home Fréttir Í fréttum Ný viðbygging vígð við Fjölbrautaskóla Suðurlands

Ný viðbygging vígð við Fjölbrautaskóla Suðurlands

148
0

Hinn 14. mars sl. var ný viðbygging við verknámsaðstöðu Fjölbrautaskóla Suðurlands vígð við formlega athöfn en auk viðbyggingarinnar voru gerðar umfangsmiklar endurbætur á eldra verknámshúsinu Hamri.

  • Inngangur að verknámshúsi.
    Inngangur að verknámshúsi.
  • FSu – Hamar, verknámsaðstaða.
    Verknámshúsið Hamar.
  • Tréiðnaðarsalur
    Í tréiðnaðarsal FSu.

Viðbyggingin er um 1.700 fermetrar, en endurbætur voru gerðar á um 1.200 fermetra eldra húsi. Aðstaðan eftir endurbætur er alls 2.876 fermetrar. Í verknámshúsinu Hamri fer fram kennsla í tré-, málm-, raf- og háriðn ásamt tækniteikningu, bóklegum fögum og námskeiðum í tölvuhönnun og sértækum iðnum.

Fjögur sveitarfélög á Suðurlandi eiga aðild að skólanum, Sveitarfélagið Árborg, Héraðsnefnd Árnesinga (án Árborgar), Héraðsnefnd Rangæinga og Héraðsnefnd Vestur-Skaftfellinga. Viðbyggingin og endurgerð eldra húsnæðis Hamars, ásamt endurnýjun búnaðar, er bylting í aðstöðu nemenda og starfsfólks skólans. Eftir breytingarnar er verknámsdeild FSu einn best búni framhaldsskóli landsins í þeim verknámsgreinum sem þar eru kenndar.

Fjöldi gesta var viðstaddur vígslu byggingarinnar. Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari FSu, stýrði dagskránni og flutti erindi um undirbúning verkefnisins, hönnun og byggingarsögu, en að því loknu blessaði séra Guðbjörg Arnardóttir, sóknarprestur Selfosskirkju, húsið, og Kristján Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, flutti erindi ásamt Gunnari Þorgeirssyni, formanni Sambands sunnlenskra sveitarfélaga. Héraðsnefnd Árnesinga afhenti skólanum peningagjöf til kaupa á trjágróðri til að planta á lóð hússins.

Hönnunarsaga

T.ark Arkitektar ehf. hlutu fyrstu verðlaun í hönnunarsamkeppni en niðurstöður hennar voru kynntar í júní 2013. Alls bárust 25 metnaðarfullar tillögur í keppnina. Höfundar verðlaunatillögunnar eru arkitektarnir Ásgeir Ásgeirsson, Ásmundur H. Sturluson, Hlín Finnsdóttir, Michael B. Erichsen og Halldór Eiríksson, síðar hönnunarstjóri verkefnisins. T.ark myndaði hönnunarteymi um verkefnið með verkfræðistofunni Mannviti.

Listskreyting hússins var í höndum Elínar Hansdóttur en listaverk hennar er fellt í gólf aðalanddyris og inngangshluta byggingarinnar.

Framkvæmdir

Byggingin, ásamt endurbótum, var boðin út vorið 2015 og áttu verktakarnir í Jáverk ehf. lægsta tilboðið.   Fyrsta skóflustungan var tekin 4. júlí 2015, verkframkvæmdin gekk vel og var byggingartíminn um tvö og hálft ár. Heildarkostnaður er alls um 1,2 milljarðar kr. að meðtöldum kostnaði við samkeppni og hönnun og nýjan kennslubúnað.

Heimild: Framkvæmdasýslan

Previous articleStefnt er að útboði Húss íslenskra fræða í sumar
Next articleFyrsta skóflustungan að Dýrafjarðargöngum um helgina