Home Fréttir Í fréttum Bág kjör erlendra starfsmanna draga niður laun

Bág kjör erlendra starfsmanna draga niður laun

110
0
Mynd: RÚV
Dæmi eru um að fastráðnum íslenskum starfsmönnum sé sagt upp og erlendir starfsmenn ráðnir í staðinn gegnum starfsmannaleigur, segir formaður Matvís. Formaður VR segir mikilvægt að verkalýðsfélögin auki eftirlit með starfsmannaleigum og hvort verið sé að brjóta á starfsfólki.

Oft á tíðum reynist erfitt fyrir stéttarfélög að bregðast við þegar brotið er á erlendu fólki sem kemur til vinnu gegnum starfsmannaleigur. Starfsmenn staldra oftast stutt við, og þegar þeir loks eru meðvitaðir um að verið sé að brjóta á þeim og hver réttindi þeirra eru samkvæmt íslenskum lögum, eru þeir á leið úr landi.

<>

Í fyrra fjölgaði starfsfólki starfsmannaleiga úr 165 í 1.527, og starfsmannaleigur voru meira en þrisvar sinnum fleiri en árið áður. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að stéttarfélög verði að auka eftirlit með starfsmannaleigum í ljósi mikillar fjölgunar þeirra. Lág laun erlendra starfsmanna geti lækkað laun annarra. „Ef að við erum að fá holskeflu af starfsmannaleigum sem eru kerfisbundið að brjóta á sínum starfsmönnum og borga þeim langt undir þeim töxtum sem eru í gildi hér á Íslandi, þá munum við draga okkur sjálf niður í kjörum þannig að botninn mun lækka,“ segir Ragnar. „Það má ekki gerast og þessvegna þurfum við að standa mjög þétt saman í að vinna á móti þessu.“

Sérstaklega erfitt getur verið að sinna eftirliti á landsbyggðinni. Að sögn formanns MATVÍS eru dæmi um að íslensku starfsfólki sé sagt upp og erlendir starfsmenn ráðnir í staðinn gegnum starfsmannaleigur. Þeir eru þá jafnvel á lægri launum og samningar þeirra ekki í samræmi við kjarasamninga. Hann segir öflugt eftirlit MATVÍS hafa orðið til þess að hægt er að leiðrétta slíkt.

 

„Við erum með pólskumælandi starfsmann sem að er eingöngu í vinnustaðaeftirliti og við höfum verið að sjá aukningu í erlendu starfsfólki hjá okkur, úr 4 í 6 prósent, þannig að aukningin er mikil, sem gefur okkur vísbendingu um hvað er að gerast á hinum almenna markaði,“ segir Ragnar. „Vinnumarkaðurinn er orðinn nánast án landamæra og fólk er að koma frá löndum þar sem að kjör eru mjög bág og það getur verið flókið að fylgjast með þessu. Þetta er eitt af þessum risastóru verkefnum hreyfingarinnar, að takast á við þetta og sporna við þessari þróun.“

Ragnar tekur sem dæmi aukin umsvif í byggingariðnaði, meðal annars með tilkomu Bjargs, íbúðafélags á vegum ASÍ og BSRB. „Þetta verður heljarinnar verkefni næstu árin, sérstaklega ef við erum að sjá 8-10 þúsund íbúðir rísa hér á næstu 8-10 árum, þannig að verkalýðshreyfingin þarf að vera gríðarlega vel undir þetta búin og fylgjast mjög vel með.“

Heimild: Ruv.is