Home Fréttir Í fréttum Annað kemur ekki til greina en að setja lög gegn félagslegum undirboðum

Annað kemur ekki til greina en að setja lög gegn félagslegum undirboðum

78
0
Þorsteinn Víglundsson Mynd: Ruv.is
Félagsmálaráðherra segir það ekki koma til greina að byggja upp vinnumarkað hér á landi á félagslegum undirboðum. Velferð allra landsmanna sé þar undir. Hann hefur lagt fyrir Alþingi frumvarp sem á að tryggja réttindi starfsmanna sem ráðnir eru í gegnum starfsmannaleigur.

Í fréttum klukkan sjö var greint frá því að rúmlega 1100 erlendir ríkisborgarar starfi hér á landi i gegnum starfsmannaleigur. Þeim hefur fjölgað mjög á undanförnum árum. Þær voru fjórar árið 2014 en 30 í fyrra og fjölgar enn.  Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ segir að í mörgum tilfellum séu framin mjög alvarleg brot á réttindum launafólks.

<>

„Það er allt of mikið um það og það er í fleiri tilfellum heldur en færri þar sem við teljum að þesar leigur séu að brjóta á starfsmönnum sínum.“ Segir Halldór.

Ráðherra vill að Alþingi bregðist við

Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra hefur lagt fyrir Alþingi frumvarp sem sem var unnið í samvinnu við stéttarfélög og atvinnurekendur og felur í sér að fyrirtæki sem kaupa þjónustu af starfsmannaleigum þurfa að bera ábyrgð á því að starfsfólkið njóti þeirra réttinda og kjara sem þeim ber. Annars getur kostnaðurinn lent á fyrirtækinu sjálfu. Þorsteinn vonast til að geta mælt fyrir frumvarpinu á Alþingi fljótlega enda sé mikilvægt að þingið grípi til aðgerða.

„Þar sem verið er einmitt að bregðast við þessari þróun og í raun verið að innleiða svokallaða keðjuábyrgð þannig að aðalverktaki beri á endanum ábyrgð á launakjörum starfsmanna ekki aðeins innan eigin ranns heldur líka hjá undirverktökum ef að undirverktakar verða uppvísir að brotum gegn kjarasamningum.“ Segir Þorsteinn.

En er hægt að búast við því að atvinnurekendur sýni ábyrgð ef ódýrt vinnuafl er í boði? Þorsteinn telur að svo sé.

„Ég trúi ekki öðru en að þegar að ríkir jafn mikið góðæri og raun ber vitni að þá hafi atvinnurekendur mikinn metnað til þess að fylgja lögum og reglum og ekki síst hvað kaup og réttindi starfsmanna varðar. Við ætlum ekki að byggja hér upp vinnumarkað á félagslegum undirboðum, það er alveg ljóst. Undir liggur velferð landsmanna allra. “ Segir Þorsteinn. Launastigið trekki að starfsfólk frá öðrum löndum.

„Við erum auðvitað með umtalsvert hærra launastig heldur en í mörgum af þeim löndum þaðan sem fólk er að streyma hingað inn og er að sækja í betra umhverfi og hærri launakjör og það á ekki að byggjast á félagslegum undirboðum og það er alveg ljóst að það er algjörlega ólíðandi ef fyrirtæki ætla sér að reyna að byggja upp einhverskonar samkeppnisforskot um verkefni hér á landi með því að brjóta á starfsfólki sínu og þar held ég að stjórnvöld, stéttafélögin og atvinnurekendur sjálfir séu algjörlega samstíga.“ Segir Þorsteinn.

Heimild: Ruv.is