Home Fréttir Í fréttum Áhrif Kröflulínu 3 á votlendi verði veruleg

Áhrif Kröflulínu 3 á votlendi verði veruleg

152
0
Mynd: Landsnet
Helstu neikvæðu umhverfisáhrif Kröflulínu 3 verða á Fljótsdals- og Jökuldalsheiði þar sem lagður verður vegur um mikið votlendi sem nýtur sérstakrar verndar. Þetta kemur fram í umsögn Umhverfisstofnunar um umhverfisáhrif línunnar.

Samhliða línunni á að leggja veg um heiðarnar og raskið sem fylgir því er frábrugðið því sem var þegar Kröflulína 2 var lögð, en nýja línan verður að stærstum hluta lögð meðfram henni frá Kröflu að Fljótsdalsstöð. Nú sé áætlað að leggja burðarhæfan veg um mjög blautt land og því verða áhrifin á votlendiskerfi verulega neikvæð. Þó sé hægt að draga úr þeim með réttu verklagi, til dæmis með því að leggja jarðvegsdúk og með því að tímasetja framkvæmdirnar rétt.

<>

„Umhverfisstofnun telur að umfang mótvægisaðgerða vegna framkvæmdanna eigi að vera í samræmi við umfang þeirra mannvirkjagerðar sem um ræðir og eigi því að hanna línuna á þann hátt að dregið verði sem mest úr neikvæðum sjónrænum áhrifum en einnig að notast verði við áður röskuð svæði við val á línuleið,“ segir í umsögninni.

Sem fyrr segir verður línan að stærstum hluta lögð samhliða Kröflulínu 2 og því eru mestu sjónrænu áhrifin þegar komin fram, segir í umsögninni. Þó verði hægt að draga úr þeim með því að leggja um 15 kílómetra af línunni í jörð, en þó aðeins þar sem jarðrask verður sem minnst. Til dæmis sé slíkt mögulegt við Teigsbjarg.

Samlegðaráhrif þar sem leggja á línuna um hraun verða verða neikvæð, en stór hluti línunnar á að liggja um hraunsvæði sem njóta sérstakrar verndar. Þar sem slíkt jarðrask er óafturkræft ætti möstur línunnar að vera komið fyrir samhliða staurum Kröflulínu 2.

Heimild: Ruv.is