Home Fréttir Í fréttum Sprengingar framundan í Grindavíkurhöfn

Sprengingar framundan í Grindavíkurhöfn

116
0

Framkvæmdir við dýpkun og nýtt þil við Miðgarð í Grindavíkurhöfn eru nú að komast á fullt skrið. Sprengja þarf klöpp á botni hafnarinnar og munu hljótast af því einhver óþægindi. Það er fyrirtækið Hagtak sem hefur verkið á sinni könnu og vilja þeir koma eftirfarandi orðsendingu á framfæri við bæjarbúa, svo að allir séu meðvitaðir um framvindu verksins:

<>

Hagtak hf. vinnur þessa dagana við dýpkun og nýtt þil við Miðgarð í Grindavík en framkvæmdir eru hafnar. Skip fara stöðugt stækkandi og til þess að missa þau ekki frá bænum er þessi dýpkun nauðsynleg.

Botn hafnarinnar er á klöpp að mestum hluta og er ekki unnt að grafa upp efnið sem fjarlægja þarf án þess að sundra því fyrst. Til þess eru notaðar kerfisbundnar sprengingar. Þessar sprengingar geta verið óþægilegar fyrir bæjarbúa og valda eðlilega áhyggjum um eignatjón og jafnvel slys. Það er því rétt að upplýsa Grindvíkinga um þessar sprengingar og hvaða áhrif þær geta haft.

Áhrif frá svona neðansjávarsprengingum eru tvenns konar. Annars vegar finnur fólk höggbylgju sem berst með berggrunninum. Berggrunnur á Íslandi er yfirleitt lagskiptur og byggður upp af hraunum úr mörgum eldgosum með mýkri og brotnari lögum á milli. Höggbylgja berst oft vel innan sama hraunlags en dempast á milli hraunlaga. Þannig finnst höggbylgjan helst þar sem hús eru grunduð á sama hraunlagi og verið er að sprengja. Í húsum í meira en um 80 m fjarlægð á titringur ekki að vera verulegur eða valda tjóni. Hins vegar getur hann fundist miklu lengra í burtu. Glös sem standa þétt saman geta glamrað og betra er að hlutir séu ekki látnir standa tæpt þannig að þeir falli við minnsta högg eða hristing. Ekki er hætta á skemmdum á húsum en betra er að huga að lausum hlutum.

Hins vegar myndast önnur bylgja sem fer eftir vatninu og finnst ekki á landi. Hún er dempuð með því að blása þrýstilofti í gegnum sjóinn. Þegar bylgjan lendir á loftbólunum þá eyðist hún. Þessi bylgja drepur dýr sem eru í sjónum næst sprengingunni. Hún er ónotaleg fyrir menn sem eru neðan vatnsborðs í skipum, til dæmis ofan í vélarúmi, en ekki hættuleg.

Alls er gert ráð fyrir að sprengt verði 30 sinnum í höfninni. Áður en sprengt er verður gefið hljóðmerki. Venjulega er sprengt síðdegis virka daga. Í sumar er hugsanlegt að unnið verði á vöktum og verður þá einnig sprengt að morgni dags. Gangi allt að óskum og lýkur sprengingum í byrjun ágúst.

Okkur hjá Hagtaki þykir miður að raska ró bæjarbúa og reynum eftir bestu getu að hafa þá röskun sem minnsta.

Heimild: Grindavik.is