Home Fréttir Í fréttum Malbikun hefst í Norðfjarðargöngum

Malbikun hefst í Norðfjarðargöngum

153
0
Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Stefnt er að því að hefja malbikun í Norðfjarðargöngum eftir hádegið. Tvær malbikunarstöðvar hafa verið settar upp við Mjóeyrarhöfn í Reyðarfirði og má búast við mikilli umferð vörubíla þaðan til Eskifjarðar með malbik næstu tvær vikurnar.

Í morgun var allt tilbúið fyrir malbikun í göngunum og var beðið eftir niðurstöðu úr prófunum á fyrstu malbiksblöndunni. Norðfjarðargöng eru rúmir sjö og hálfur kílómetri og liggja milli Eskifjarðar og Norðfjarðar og fyrst verða malbikuð útskot nær gangamunnanum Fannardalsmegin í Norðfirði.

<>

Náttúrulegur trekkur loftræstir göngin

Malbikið er hitað upp í 150-160 gráður þegar það er lagt og þurfa verktakar að fylgjast vel með og mæla mengun sem kann að safnast fyrir í göngunum. Meiri áhyggjur eru þó af útblæstri tækja sem notuð eru við verkið en loftinu sem stígur upp af nýlögðu malbikinu. Færanlegir blásarar eru notaðir til að hreinsa loftið til viðbótar við náttúrlegt loftstreymi í göngunum. Oftast er trekkur frá Eskifirði til Norðfjarðar, það er upp í móti og verður malbikið lagt á móti trekknum; sem sagt byrjað Norðfjarðarmegin.

Tvö lög af malbiki

Samkvæmt upplýsingum frá Suðurverki þarf að malbika samtals 55-60 þúsund fermetra og í það fara 16 þúsund tonn af malbiki. Það er lagt í tveimur lögum. Fyrst eitt lag og kantsteinn steyptur í kjölfar þess og svo annað lag. Stefnt er að því að klára malbikun á næstu tveimur vikum rúmlega. Þá er eftir heilmikil vinna við raflagnir, lýsingu og annað og verða göngin opnuð eftir um fjóra mánuði; í byrjun september.

Heimild: Ruv.is