Home Fréttir Í fréttum Grafarvogur skelfur vegna framkvæmda við Kleppsbakka í Sundahöfn

Grafarvogur skelfur vegna framkvæmda við Kleppsbakka í Sundahöfn

281
0
Mynd úr safni. Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Kona hafði samband við fréttastofu síðdegis í dag og sagðist hafa fundið snarpan jarðskjálfta í Grafarvogi. Hún furðaði sig á tíðum skjálftum þar undanfarið. Þegar haft var samband við jarðfræðing á Veðurstofu Íslands vegna málsins kom í ljós að jörð hafði vissulega skolfið – það sýndu mælar Veðurstofunnar greinilega – en að skjálftinn væri af mannavöldum og stafaði af neðansjávarsprengingum við Kleppsbakka í Sundahöfn.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni virðist sem sprengingarnar hafi fundist mjög greinilega í hverfum í nágrenninu. Meðal annars hefði verið sprengt á sumardaginn fyrsta og páskadag.

<>

Þegar fréttastofa hafði aftur samband við konuna, Elínu S. Björnsdóttur, og sagði henni frá því hvernig væri í pottinn búið kvaðst hún ósátt við að íbúar í hverfunum í kring hefðu ekki verið varaðir við því að þetta stæði til. „Mér finnst það óeðlilegt, vegna þess að þetta eru það miklir kippir – það hristist allt hérna og gler fer á fleygiferð. Maður er í undirmeðvitundinni búinn að vera mjög órólegur yfir þessu,“ segir Elín.

„Þetta er ekkert hættulegt“

Það er verktakafyrirtækið Ístak sem þarna sprengir fyrir Faxaflóahafnir. Karl Andreassen, framkvæmdastjóri Ístaks, segir að þetta séu dýpkunarframkvæmdir, borprammi liggi í höfninni, bori niður í klöpp á botninum og síðan sé hún sprengd í burtu. Þetta sé yfirleitt þriggja daga rútína – að færa prammann, fjarlægja jarðveg ofan af klöppinni, bora holuna, koma sprengiefninu fyrir og sprengja – þess vegna hafi verið sprengt á um þriggja daga fresti síðan farið var af stað um tveimur vikum fyrir páska.

Hann segir að þetta muni halda áfram í þrjár til fjórar vikur í viðbót, losa þurfi fjóra og hálfs metra þykka klöpp og að hún teygi sig um 160 metra vegalengd. „Þetta er ekkert hættulegt en það kemur náttúrulega högg þegar sprengt er og það getur verið að fólk finni fyrir því – þetta er auðvitað klöpp sem leiðir upp í hverfin,“ segir hann.

Þar sem þetta sé iðnaðarsvæði langt frá byggð megi sprengja þarna alla daga „og við vinnum alla daga til að klára þetta“. Ekki sé hins vegar sprengt að nóttu til.

Spurður hvort ekki hefði verið tilkynnt um að til stæði að sprengja á svæðinu segist Karl ekki vita það, svæðið sé það langt frá byggð að sprengingarnar ættu ekki að hafa stórfelld áhrif. Þar fyrir utan sé það verkkaupans, í þessu tilviki Faxaflóahafna, að sinna slíkri upplýsingaskyldu gerist hennar þörf.

Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, vísar hins vegar í hina áttina. „Venjan hefur verið sú að verktakinn sem er með svona verkefni komi á framfæri tilkynningum um svona atriði,“ segir Gísli. Hins vegar kemur honum á óvart að heyra að hús leiki á reiðiskjálfi þegar sprengt er. „Menn hafa nú bara ekki heyrt af neinum kvörtunum hingað til, enda í sjálfu sér tiltölulega litlar sprengingar. Við tökum á málinu í bítið,“ segir hann.

Heimild: Ruv.is