Málið á sér langan aðdraganda og er rakið nokkuð ítarlega í dómi héraðsdóms sem féll í vikunni en var birtur í dag. Samkvæmt samkomulaginu átti verktakafyrirtækið að fá sitja eitt að allri jarðvegsvinnu og steypusölu vegna framkvæmda við hótel og golfvöll á Siglufirði.
Róbert vildi að verktakafyrirtækið færði starfsemi sína þar sem hann taldi að svæðið eins og það væri nýtt samrýmdist ekki hugmyndum sínum um heildarmynd af því umhverfi sem fyrirtæki hans, Rauðka, óskaði að starfa í. Róbert hefur staðið fyrir umfangsmikilli uppbyggingu á Siglufirði og fjárfest þar fyrir þrjá milljarða í ýmsum verkefnum.
Málið snerist að einhverju leyti um hvort Magnús Jónasson, fyrrverandi forseti bæjarstjórnar Fjallabyggðar, hefði komið fram fyrir hönd verktakafyrirtækisins í samningaviðræðunum við Róbert eða ekki. Magnús hefur verið til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara vegna gruns um fjárdrátt hjá Afli Sparisjóði. Magnús var framkvæmdastjóri Báss frá árinu 1997 til ársins 2012 þegar hann seldi hlut sinn í fyrirtækinu en eiginkonu Magnúsar tók þá við framkvæmdastjórastöðunni.
Róbert lagði á það áherslu að hann hefði litið svo á að Magnús talaði máli Báss í samningaviðræðunum. Hann hefði raunar komið fram fyrir hönd fyrirtækisins allt til haustsins 2015. Það hefði ekki eingöngu verið í samskiptum við sig heldur hefði hann haft aðgang að bankareikningum og annast millifærslur af þeim.
Þessu mótmæltu forsvarsmenn Báss og sögðu að Magnús hefði eingöngu haft óformlega heimild til þess að annast samskipti við Róbert fyrir sína hönd . Hann hafi átt að mæta á fundi og hlusta á hugmyndir Róbert um lausn á deilunni. Hann hafi ekki haft neina heimild til að samþykkja eitt eða neitt. Þetta hafi verið mikilvæg ákvörðun sem varði verulega hagsmuni fyrirtækisins og því hafi það aldrei komið til að Magnús fengi slíkt umboð. Þá hafi aldrei verið haldin formlegur fundur með þeim sem raunverulega hefðu heimild til að skuldbinda Bás.
Magnús gaf sjálfur skýrslu fyrir dómi þar sem hann staðfesti að munnlegt samkomulag um flutning Báss af svæðinu hefði verið gert í samráði við forsvarsmenn Báss.
Héraðsdómur kemst þó að þeirri niðurstöðu að verktakafyrirtækið hafi aldrei samþykkt endanlega að flytja þótt það hafi kannað möguleika á því og kannað hvað slíkir flutningar kostuðu. Og þar sem ekki verði á því byggt að Magnús hafi haft heimild til að gefa bindandi loforð um slíkan flutning hafi þeirri staðhæfingu ekki verið hnekkt.
Heimild: Ruv.is