Home Fréttir Í fréttum Hæsta fermetraverð allt að milljón

Hæsta fermetraverð allt að milljón

125
0
Hæsta fermetraverð á lúxusíbúðum í miðbæ Reykjavíkur er allt upp í eina milljón króna. Þetta segir Ingibjörg Þórðardóttir formaður félags fasteignasala. Fermetraverð í höfuðborginni er á mörgum stöðum yfir 400 þúsund en staðsetning ræður mestu um verðið.

Fasteignaverð hefur hækkað um tæp 11 prósent á síðasta ári og enn meiri hækkun er fyrirsjáanleg á næstu mánuðum. Til að mynda spáir hagfræðideild Landsbankans rúmlega 20 prósenta hækkun á fasteignaverði á næstu þremur árum.

<>

Ingibjörg segir að eitthvað meira verði að vera á bakvið spár um hækkanir á fasteignaverði en væntingar og vonir í spádeildum bankanna. Ekki sé heldur hægt að gera ráð fyrir að eignir hækki geigvænlega eftir því sem fjær dregur miðbæ. Ingibjörg vonar að hækkanir verði raunhæfar og eðlilegar, markaðurinn megi ekki við því að vera talaður upp meira en eðlilegt er.

Hún segir að almenningur geti ekki tekið endalaust þátt í því að fasteignaverð hækki enda geta ekki allir keypt. Þeir sem ætli sér að kaupa þurfi að leggja út nokkrar milljónir, sem alls ekki er á færi allra.

Ingibjörg bendir á að fasteignaverð hafi hækkað verulega í Vestmannaeyjum og að mikið líf sé í sölu fasteigna á Akureyri.

Heimild: Rúv.is