Home Fréttir Í fréttum Líkamsræktarstöð verður byggð við Breiðholtslaug

Líkamsræktarstöð verður byggð við Breiðholtslaug

138
0

Líkamsræktarstöð verður byggð við Breiðholtslaug og er stefnt að opnun í janúar á næsta ári.

<>

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Björn Leifsson, framkvæmdastjóri World Class, skrifuðu undir samning um byggingu og rekstur stöðvarinnar.

Dagur segist mjög glaður fyrir hönd Reykjavíkur og Breiðhyltinga sérstaklega. „Það verður gott fyrir hverfið að fá loksins líkamsræktarstöð en hún mun líka koma til með að styrkja Breiðholtslaug enn frekar.“
Í tilkynningu segir að líkamsræktarstöðin verði byggð sunnan sundlaugarinnar og gerður tengigangur meðfram íþróttahúsi til að samnýta afgreiðslu, búningsklefa og sturtur með sundlauginni. „Einnig fá gestir stöðvarinnar aðgang að laug og pottum. Deiliskipulag hefur verið samþykkt og heimilar það aukinn byggingarrétt að 1.700 fermetrum. Líkamsræktaraðstaðan verður hönnuð af Úti og Inni arkitektum og Ara Má Lúðvíkssyni arkitekt.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist fljótlega og á líkamsræktaraðstaðan að verða tilbúin eins og áður segir í janúar 2016.“

Björn segist mjög stoltur og spenntur fyrir því að vinna að þessu verkefni með borginni. „Stutt er í opnun þannig að það er eins gott að láta hendur standa fram úr ermum en við ætlum að sjálfsögðu að standa við stóru orðin.”

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við nýbyggingu verði boðnar út samhliða útboði á þeim breytingum sem gera þarf á þjónustubyggingu Breiðholtslaugar.

Þrek mun byggja og reka líkamsræktaraðstöðuna, en Reykjavíkurborg byggir glerganginn meðfram íþróttahúsinu. Þrek ehf. greiðir 75 milljónir króna fyrir byggingarréttinn, gatnagerðargjöld og afnot af bílastæðum.

Heimild: Vísir.is