Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdaleyfi Suðurnesjalínu felld úr gildi

Framkvæmdaleyfi Suðurnesjalínu felld úr gildi

85
0
Öll framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu tvö hafa verið felld úr gildi og óvíst er hvenær hægt verður að hefjast handa við að leggja línuna. Ekki var nægjanlega vel kannað hvort jarðstrengur væru raunhæfur kostur.

 

<>

Hæstiréttur staðfesti í febrúar úrskurð Héraðsdóms Reykjaness frá því í júlí á síðasta ári, þar sem framkvæmdaleyfi sem sveitarfélagið Vogar hafði veitt fyrir línuna var fellt úr gildi. Á grunni þess úrskurðar, hefur Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fellt úr gildi framkvæmdaleyfi sem önnur sveitarfélög höfðu veitt fyrir línuna. Þau eru Hafnarfjarðarbær, Grindavík og Reykjanesbær.

Að mati Hæstaréttar var ekki fjallað nægjanlega vel um jarðstrengi í umhverfismati Landsnets. Skipulagsstofnun hefði átt að gera athugasemdir við slíkt en gerði ekki. Því var bæði umhverfismatsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar ekki lögmætur grundvöllur fyrir veitingu framkvæmdaleyfa.

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir að úrskurður nefndarinnar hafi ekki komið á óvart, eftir dóm Hæstaréttar.

„Nei, hann gerði það ekki. Áður en hann féll þá höfðum við, strax í kjölfar dómsins um framkvæmdaleyfið í Vogum, ákveðið að óska eftir því við hin sveitarfélögin að draga til baka framkvæmdaleyfin. Við vorum búin að senda bréf þess efnis til sveitarfélaganna,“ segir Steinunn.

Óvíst er hvort og þá hvenær Suðurnesja lína tvö verður lögð.

„Við erum bara að skoða hver næstu skref eru, en það er ljóst að þörfin fyrir línuna er ennþá til staðar,“ segir Steinunn.

Heimild: Rúv.is