Home Fréttir Í fréttum Bankaráðsformaður Landsbankans segir nýjar höfuðstöðvar brýnar en ekki flottræfilshátt

Bankaráðsformaður Landsbankans segir nýjar höfuðstöðvar brýnar en ekki flottræfilshátt

173
0

Bankaráðsformaður Landsbankans segir að enginn flottræfilsháttur verði á nýjum höfuðstöðvum bankans sem nauðsynlegt sé að byggja af hagkvæmnisástæðum. Landsbankinn ákveður í vor hvort hann byggir nýjar höfuðstöðvar á Hörpu-reitnum eða annars staðar. Í dag voru opnuð tilboð í uppsteypu á nýju Marriott hóteli við Hörpu.

<>

Landsbankinn hefur verið með höfuðstöðvar sínar í núverandi byggingu í Austurstræti í tæp nítíu ár. En hann er með starfsemi víða annars staðar í Kvosinni á um 20 þúsund fermetrum. Stjórnendur bankans telja brýnt að byggja nýjar höfuðstöðvar og hafa gefið sér tímafrest í þeim efnum.

Reyndar hefur bankinn verið á þessari lóð allt frá árinu 1898 en hús sem byggt var það ár eyðilagðist í bruna árið 1915. Það var síðar endurbyggt og aðalbyggingin kominn í núverandi mynd árið 1924.

Fyrir um tveimur árum ákvað bankaráð að hefja hönnunarsamkeppni um nýjar höfuðstöðvar á hörpureitnum en vegna mikillar gagnrýni var fallið frá þessum áformum sumarið 2015. Helga Björk Eiríksdóttir formaður bankaráðs Landsbankans segir að nú þrýsta aðstæður hins vegar á að bankinn hrökkvi eða stökkvi varðandi lóðina við Hörpu.

„Jú það er rétt hjá þér. Við höfum falið nýjum bankastjóra að fara mjög vel yfir málin. Yfir þær greiningar og þarfir sem við höfum sett. En það er orðið mjög brýnt að leysa húsnæðismál bankans og þess vegna ætlum við að taka ákvörðun í vor,“ segir Helga Björk.

Framkvæmdir annarra aðila á Hafnartorgi eru langt komnar en þær byggingar tengjast beint skipulaginu við Hörpu. Meðal annars mun samtengdur bílastæðakjallari fyrir rúmlega þúsund bíla liggja undir öllu svæðinu. Í dag voru síðan opnuð tilboð í uppsteypu Marriott hótelsins sem rísa á við Hörpu en verkið á að hefjast strax í næsta mánuði.

Allar þessar framkvæmdir þrýsta því á ákvörðun af hálfu Landsbankans sem hefur heimild til að byggja 16 þúsund fermetra hús á hörpureitnum.

„Það er alveg ljóst að ef hús verður byggt þarna verður verslun og þjónusta á neðstu hæðinni, þá munum við ekki nýta það. Við munum ekki þurfa allt þetta húsnæði þannig að við munum þurfa að leigja eða selja út frá okkur, ef til kemur að byggt verði þarna,“ segir bankaráðsformaðurinn. En í dag er talið að bankinn þurfi um 11 þúsund fermetra undir höfuðstöðvar.

Helga segir aðstöðu bankans búna að vera óviðuandi lengi á þrettán stöðum í miðborginni ásamt fleiri stöðum víða um borgina. Þetta sé spurning um hagræðingu en ekki flottræfilshátt.

„Þetta er farið að standa okkur fyrir þrifum að vera í svona dreifðri starfsemi í allt of stóru húsnæði. Við þurfum sveigjanleika til framtíðar og að sjálfsögðu ef til kemur að við byggjum hús, hvort sem það verður á hörpureitnum eða annars staðar, þá verður enginn flottræfilsháttur þar á bæ. En þetta er mjög brýnt verkefni fyrir bankann,“ segir Helga Björk Eiríksdóttir.

Heimild: Visir.is