Iceland Construction ehf. (IC), áður Ístak hf., hefur í dag sagt upp ráðningarsamningum við alla starfsmenn sína í Noregi en þeir eru um 140. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu en þar segir að þetta sé gert í varúðarskyni vegna erfiðrar rekstrarstöðu. Norskum vinnumálayfirvöldum hefur verið tilkynnt um uppsagnirnar.
Um helmingur starfsmanna IC eru Íslendingar og um helmingur Pólverjar en á næstu dögum mun fyrirtækið vinna að endursamningum við verkkaupa og er vonast til þess að þá verði hægt að draga uppsagnirnar til baka.
Félagið vinnur að einu verkefni í Noregi en það felst í byggingu fimm vatnsaflsvirkjana. Um 80 prósentum af verkinu er lokið en afkoma þess hefur verið undir væntingum og er það rekið með tapi.
„Uppsagnirnar eru gerðar í varúðarskyni. Við erum í viðræðum við verkkaupa um endurskoðun samninga. Á næstu dögum kemur í ljós hvort hægt verði að afturkalla uppsagnirnar, eins og við vonumst til. Starfsmenn IC verða áfram við störf í Tosbotn þar til framhald verkefnisins skýrist betur,“ er haft eftir Jóni Steingrímssyni, framkvæmdastjóra IC, í tilkynningu.
Landsbankinn eignaðist IC, áður Ístak hf., þegar móðurfélag þess, danska verktakafyrirtækið Pihl & Søn var tekið til gjaldþrotaskipta í lok ágúst 2013. Þegar umsvifin voru mest á árunum 2012–2014 störfuðu um 450 starfsmenn að verkefnum félagsins í Noregi.
Haustið 2013 var félagið auglýst til sölu, án árangurs. Árið 2015 var stærsti hluti félagsins seldur undir nafninu Ístak hf. en IC hélt áfram starfseminni í Noregi. Rekstur IC í dag er Ístaki óviðkomandi. IC hefur undanfarið unnið að því að ljúka verkefnum sínum og er verkefnið í Tosbotn síðasta verkefni félagsins.
Heimild: Visir.is