Home Fréttir Í fréttum Aðgerðaleysi eða mestu framkvæmdir í áratugi

Aðgerðaleysi eða mestu framkvæmdir í áratugi

112
0
Uppbygging íbúðarhúsnæðis í borginni einkennist annað hvort af algjöru aðgerðaleysi eða mesta framkvæmdatíma um áratuga skeið. Það fer eftir því hvorir mæla, fulltrúar minnihluta eða meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Fulltrúar meirihlutans og minnihlutans í borgarstjórn deildu harðlega um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í borginni í Silfrinu á RÚV.

Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sagði uppbygginguna framundan með mesta móti. „Við erum að fara inn í mesta framkvæmdatíma sem sést hefur á undanförnum áratugum. Ef menn fara rúmlega 40 ár aftur í tímann þá finnum við hvergi merki um eins langt tímabil og við erum stödd í þar sem er svona mikil uppbygging á hverju ári.“

<>

„Við erum að fara að vinna upp tíu ára vanda,“ svaraði Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina. „Það voru 399 fullgerðar íbúðir í Reykjavík á síðasta ári. Það gengur alltof hægt meðal annars út af þéttingarstefnu ykkar í meirihlutanum þar sem er ekki úthlutað lóðum í borginni.“

„Í boði ykkar er í raun og veru verið að úthýsa efnaminna fólki og stuðla að fátækt í borginni,“ sagði Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Hún sagði hlutverk borgarinnar að tryggja lóðaframboð og nefndi sérstaklega að fjöldi fólks sem byggi utan borgarinnar keyrði framhjá Úlfarsárdal, hún spurði hvers vegna lóðaframboð þar væri ekki aukið.

„Þetta eru upphrópanir í raun og veru hjá okkar ágætu kollegum. Þessi lausn er engin heildarlausn,“ svaraði Björn Blöndal, borgarfulltrúi Bjartrar framtíðar, og sagði að verið væri að fjölga íbúðum í Úlfarsárdal töluvert. Að auki væru fleiri byggingarsvæði til staðar, sum í eigu ríkisins sem borgin fengi ekki til uppbyggingar.

Heimild: Ruv.is