Home Fréttir Í fréttum Þetta eru jarðgöngin sem bylta Færeyjum

Þetta eru jarðgöngin sem bylta Færeyjum

274
0
GRAFÍK/EYSTUR- OG SANDOYARTUNLAR

Framkvæmdir eru hafnar við mesta samgöngumannvirki Færeyja, ellefu kilómetra löng neðansjávargöng sem stytta aksturstímann milli Þórshafnar og Klakksvíkur um helming. Í fréttum Stöðvar 2 var sýnt frá fyrstu sprengingu.

<>

Lögmaður Færeyja, Aksel Johannesen, segir göngin verða mestu samgöngubyltingu í sögu eyjanna og var mannfjöldi mættur til að fylgjast með þegar samgönguráðherrann, Henrik Old, hóf verkið formlega með fyrstu sprengingu í vikunni. Það er skandinavíska verktakafyrirtækið NCC sem grefur göngin en heildarkostnaður er áætlaður um 17 milljarðar íslenskra króna.

Heildarlengd verður 11.240 metrar. Þau kallast Austureyjargöng og munu tengja saman tvær stærstu eyjar Færeyja, Straumey og Austurey og jafnframt stytta leiðir verulega milli helstu þéttbýlissvæða eyjanna. Þannig mun aksturstíminn milli Þórshafnar og Klakksvíkur styttast úr um 70 mínútum niður í um 38 mínútur.

Tveir gangamunnar verða að austanverðu til Skálafjarðar og þar aka menn um hringtorg, annar afleggjarinn liggur til Runavíkur en hinn til Stranda en íbúar þessara staða upplifa mestu styttinguna. Leiðin milli Þórshafnar og Runavíkur fer þannig úr 55 kílómetrum niður í 17 kílómetra, sem þýðir að aksturtíminn styttist úr um 64 mínútum niður í um 16 mínútur.

Áætlað er að um sexþúsund bílar muni aka um göngin á sólarhring en lögmaðurinn segir þau gríðarlegt framfaraskref fyrir Færeyjar.

„Þetta hefur verið farartálmi öldum saman en nú getur allt þetta svæði orðið einn vinnumarkaður. Fólk getur farið mjög fljótt á milli staða. Þá munu atvinnulífið spara mikið fé í flutningi á fiski; laxi og öðrum varningi,“ sagði Aksel V. Johannesen.

Upphaflega stóð til að göngin yrðu alfarið einkaframkvæmd en samningur við danskt fjárfestingafélag olli hörðum pólitískum deilum, sem kostuðu afsögn þáverandi samgönguráðherra. Þá var ákveðið að opinbert hlutafélag í eigu færeyska landskassans sæi um verkið og yrði eigandi ganganna. Kostnaður verður þó greiddur með veggjöldum og er áætlað að verkið taki 3 til 4 ár.

Hér má sjá grafískt myndband af göngunum.

Heimild: Visir.is