Home Fréttir Í fréttum „Frárennslismál við Mývatn eru í lamasessi“

„Frárennslismál við Mývatn eru í lamasessi“

88
0

Hóteleigendur sem græða á staðsetningu sinni við Mývatn fá óhikað að græða á kostnað náttúru vatnsins án afskipta þeirra stofnana sem eiga að gæta náttúru svæðisins. Þetta sagði framkvæmdastjóri Landverndar í Kastljósi í kvöld. Þar var fjallað um slakt eftirlit og ítrekaðar undanþágur sem veittar hafa verið til hótelrekenda í sveitarfélaginu frá þeim reglum sem gilda um fráveituhreinsun. Á sama tíma sé lífríki ógnað af sömu ástæðum og álagið geri lítið annað en að aukast.

<>

Mývatns og Laxársvæðið; sem á mótum tveggja heimsálfa, skartar fjölbreyttri og oft sjaldgæfri fánu dýra og annars lífríkis, gerir svæðið einstakt á heimsvísu, eins og staðfest var með skráningu þess á lista Sameinuðu þjóðanna yfir votlendi jarðar sem njóta þurfi sérstakrar verndar.

Lög um verndun Mývatns og Laxár voru fyrst sett árið 1974 í kjölfar harðra deilna um virkjun Laxár. Með lögunum var Mývatn sjálft og bakkar þess um það bil 200 metra upp á land ásamt Laxá og bökkum hennar að ósi árinnar í Skjálfandaflóa, friðuð. Mannvirkjagerð, jarðrask og breytingar á rennsli og hæð vatns og ár, er þannig bönnuð án leyfis Umhverfisstofnunar.

Þrátt fyrir allar alþjóðlegar vottanir og staðfestingar á verndargildi Mývatns. Öll þessi lög og reglugerðir er svæðið engu að síður nú á Rauðum lista Umhverfisstofnunar. Það þýðir það að Mývatns og Laxársvæðið er svæði sem hefur verndargildi sem á á hættu að glatast.

Ágangur ferðamanna og ekki síst aukið álag á fráveitu og skólp eru sögð helstu ógnir við lífríki svæðisins – og taldar skýra hrun bleikjustofnsins og hins einstæða kúluskíts. Í skýrslu sem unnin var vegna neyðarástands í lífríki vatnsins fyrir rúmu ári, var bent á að jafnvel þótt ekki væri hægt að slá því algjörlega föstu að þetta væri afleiðing bágs ástands frárennslismála, sé engu að síður ljóst að grípa þurfi til aðgerða og þannig „beitingar varúðarreglunnar, sem segir að þótt ekki sé vísindaleg fullvissa fyrir orsökum umhverfisvanda sé það ekki réttlæting fyrir aðgerðaleysi.“

Slíkar ráðstafanir höfðu þegar verið gerðar í lögum árið 2004 en voru staðfestar með reglugerð árið 2012, þar sem strangari reglur voru settar um skólphreinsun innan verndarsvæðisins.

„Skólp á vatnasviðinu skal hreinsað með ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa í samræmi við ákvæði um fráveitur og skólp.“

Með ítarlegri hreinsun er átt við hreinsun niturs og fosfórs sem talið er geta haft umtalsverð neikvæð áhrif á lífríki vatnsins og árinnar. Til þess þarf öflugri hreinsistöð en bara venjulegar rotþrær.

Landvernd hefur látið sig þetta mál varða og kært leyfis- og eftirlitslausar byggingaframkvæmdir til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, sagði ljóst að víða væri pottur brotinn í stjórnsýslu, leyfis og eftirlitsmálum tengdum hótelbyggingum í sveitarfélaginu.

„Þetta eru auðvitað hóteleigendur sem eru í rauninni að græða á nálægðinni við náttúruperluna Mývatn. Þannig að núna á síðustu tveimur til þremur mánuðum höfum við verið að kafa ofan í þetta fyrir nokkur hótel í sveitinni og því miður komist að því að þessi mál eru ekki í góðum farvegi.“

Á þeim fimm árum sem liðin eru frá því reglugerðin var sett hefur álag á fráveitu svæðisins aukist mikið. Gistirýmum hefur fjölgað um á annað hundrað herbergi og umferð ferðamanna vaxið gríðarlega. Þrátt fyrir reglugerðina, ítrekuð aðvörunarorð og umræðu um ástand vatnsins, hefur þó lítið breyst. Og svo virðist sem leyfismálum og eftirliti sé verulega ábótavant.

Framkvæmdir við 80 herbergja hótel í landi Arnarvatns innan verndarsvæðisins hófust haustið 2013. Hótelið var frá upphafi markaðssett sem umhverfisvottað hótel sem státaði meðal annars af fráveitu sem hönnuð væri með það í huga og í samræmi við reglugerð sem gilti um svæðið. Grænt og hreint, er lýsingin sem notuð er í markaðssetningu þess.

„Við gerum þetta með þeim hætti sem sómi er að. Það er ekki hægt annað í þessari sveit. Þú byggir ekki nýtt hótel í þessari sveit öðruvísi en að byggja það með þeim hætti að það sé í sátt við umhverfið og náttúruna,“ sagði þáverandi hótelsstjóri Hótels Laxár þegar hótelibyggingin var kynnt árið 2013, en hótelið var fyrsta hótelið við Mývatn til þess að fara að reglugerðinni um þriggja þrepa skólphreinsun.

Í sumar kom hins vegar í ljós bilun í búnaðinum. Í fréttum var sagt frá því að eftir ábendingu frá vegfaranda hefði heilbrigðiseftirlitið mælt saurgerlamengun í affallsvatni sem rann frá stöðinni. Talsmenn hótelsins fullyrtu þá að mengunin hefði einungis orðið vegna mistaka og varað tímabundið.

Afrit af bréfaskiptum fyrirtækisins Borgarplasts sem seldi hótelinu skólphreinisbúnaðinn segja þó aðra sögu. Fyrirtækið hafði frá árinu 2014 ítrekað gert athugasemdir við hvernig Hótel Laxá hefði hirt um skólphreinsistöðina og bent á að hún þyrfti betra og tíðara eftirlit. Í bréfi til stjórnenda hótelsins í apríl 2015 segir:

„Ljóst er að viðhaldi og viðgangi stöðvarinnar er ekki sinnt.“

Síðastliðið sumar virðist sem forsvarsmenn Borgarplasts hafi þrotið þolinmæðina. Í bréfi sem sent er byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps eru áhyggjur fyrirtækisins af frárennslismálum hótels Laxár reifaðar. Ítrekaðar kröfur um úrbætur raktar og greint frá heimsókn starfsmanna Borgarplasts á hótelið í byrjun júlí auk þess sem myndir frá heimsókninni fylgdu:

„Skemmst er frá því að segja að stöðin er í algjörri vanhirðu og ljóst að þar hafði enginn sinnt eftirliti og viðhaldi, sennilega aldrei eftir að stöðin var sett upp 2014.“

Skoðun hafi leitt í ljós að mýs höfðu komist í stjórnskápa stöðvarinnar sem höfðu verið látnir standa opnir og stíflað loftinntök þannig að stöðin varð óvirk. Það hafi orðið til þess að skólpgeymar yfirfylltust og óhreinsað skólp lak út um víðan völl. Eftir viðgerð starfsmanna hafi stöðin þó gengið eðlilega. Þó sé frágangi hótelsins á afrennsli stöðvarinnar ekki enn lokið og það sett í sérstakar lagnir eins og gert hafi verið ráð fyrir frá upphafi. Auk þess sé fituskilja hótelsins of lítil sem verði til þess að of mikil fita fer inn í skólphreinsistöðina og valdi þar vandræðum, rétt eins og annar úrgangur sem eigi ekki að berast þangað, og ekki sé passað upp á að fari út í frárennsli.

Í bréfinu til byggingarfulltrúa sveitarfélagsins fer Borgarplast fram á að embættið þrýsti á hótelið að ljúka framkvæmdum við hreinsistöðina, enda sé á þriðja ár liðið frá því hún var tekin í notkun.

Í bréfinu lýsti Borgarplast einnig furðu sinni á því að sveitarfélagið og heilbrigðiseftirlitið hafi enn ekki gert lokaúttekt á hreinsistöðinni.

„Meðan svo er geta heilbrigðisyfirvöld ekki hafið lögbundið eftirlit, nema á einhverri undanþágu, með umræddri hreinsistöð sem telst vera í verulegum ólestri sökum vanhirðu.“

Þorkell Björnsson, eftirlitsmaður hjá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands Eystra, sagðist í Kastljósi telja ljóst að forsvarsmenn hótelsins hefðu ekkii sinnt stöðinni sem skyldi. Hann gæti fallist á það að eftirliti með starfseminni hefði ekki verið nóg í ljósi þessa. Það sé eðlilegt þótt spurt sé hvers vegna lokaúttekt hefði ekki enn farið fram á Hótelinu, það hefði átt að gerast mun fyrr. Þó væri ljóst að Hótelið hefði nýlega fengið frest þar sem einhver bilun væri í búnaðinum, sem þó væri farinn að virka, að sögn. Ef það dærgist áfram væri einfaldlega hægt að stöðva starfsemi á hótelinu.

Þorsteinn Gunnarsson, nýráðinn sveitarstjóri Skútustaðahrepps, sagði myndirnar sem fylgdu skýrslu Borgarplasts, sláandi og vonbrigði að sjá hvernig málum hefði verið háttað. Spurður hvers vegna lokaúttekt sveitarfélagsins og heilbrigðiseftirlitisins hefði ekki enn farið fram, þremur árum eftir að hótelið hóf starfsemi sína, sagðist Þorsteinn vilja fara yfir það með hvaða hætti og hvort sveitarfélagið bæri þar einhverja ábyrgð.

Samkvæmt útreikningum sem koma fram í drögum að skýrslu sem verkfræðistofan Efla er að vinna fyrir Umhverfisráðuneytið myndi það kosta 500 til 700 milljónir króna að koma upp þriggja þrepa frárennslishreinsun í öllum hreppnum. Ef ráðast á í það þyrfti því ríkisstuðning.

Hins vegar er ljóst að ætlast er til þess að starfsemi yfir ákveðinni stærð, eins og hótelrekstur, eigi sjálf að sjá um slíkar framkvæmdir. Nýtt hótel við Flatskalla í nágrenni Reykjahlíðar, sem nú er í smíðum, mun til dæmis koma upp slíkri hreinsun.

Önnur hótelbygging sem fór yfir þessi mörk árið 2015, fékk þó undanþágu frá reglugerðinni.Það er Sel Hótel við Skútustaði sem stækkað var um nærri helming og herbergjum fjölgað í 60. Eigandi hótelsins taldi að jafnvel þó Hótel Laxá væri þá að koma upp búnaði til hreinsunar, samkvæmt forskrift reglugerðarinnar, væri óvissa um hvernig ætti að standast ákvæði hennar og

„Ekkert lá fyrir frá Umhverfisstofnun annað en að þetta væri verkfræðilegt úrlausnarefni,” segir í svari eiganda Sel-Hótels til úrskurðarnefndar um Umhverfis- og auðlindamál vegna kæru Landverndar.

Eigendur hótelsins myndu því bíða eftir því að Skútustaðahreppur byggði upp skólphreinsun. Á þetta féllst Skútustaðahreppur, þrátt fyrir andmæli heilbrigðiseftirlitisins. Í fyrrnefndum skýrsludrögum um fráveitumál við Mývatn telja skýrsluhöfundar að hreppurinn hefði ekki átt að fallast á undanþágur Sels Hótels. Svo vill til að oddviti Skútustaðahrepps er eigandi Sels Hótels.

„Þetta hlýtur að setja bæði oddvitann og Skútustaðahrepp sjálfan í þá stöðu að gera, ef eitthvað er, ennþá meiri kröfur,“ sagði framkvæmdastjóri Landverndar í Kastljósi í kvöld. Yngvi Ragnar Kristjánsson oddviti Skútustaðahrepps og hótelstjóri Sel-Hótels sagðist aðspurður um þetta:

„Það er sjálfsagt vel hægt að teikna það upp þannig að þetta séu miklir hagsmunaárekstrar. En þarna stóðu menn bara uppi á ákveðnum tíma og hérna. Hvað átti að gera? Þú hefur ekki klárt fyrir framan þig hvað á að gera? Hvað geturðu þá gert?

-En var ekki Hótel Laxá að gera þetta á sama tíma?

Jú, þeir tóku skrefið og fóru út í það að þeir vildu markaðssetja sig sem umhverfisvænasta hótelið hérna og fara lengra heldur en aðrir voru að gera. Og kusu að fara þessa leið.

-Og fara að reglunum náttúrulega?

Já, já, eins og þeir vildu fara.

-Og áttu að gera?

Já. Já. Klárlega. Það er vel hægt að setja þetta þannig upp að við séum með allt niður um okkur. En það er hins vegar ekki meiningin,“ sagði Yngvi Ragnar Kristjánsson oddviti Skútustaðahrepps og hótelstjóri Sel-Hótels.

Sel Hótel er þó ekki eina hótelið innan verndarsvæðisins sem sveitarfélagið hefur veitt undanþágu. Í september í fyrra samþykkti Skútustaðahreppur breytingar á deiliskipulagi vegna byggingar þessara starfsmannahúsa við Hótel Laxá. Deiliskipulagið gerði áður ráð fyrir því að frárennsli yrði hreinsað, eins og reglugerð kvað á um og dælt í hreinsistöð hótelsins.

Til þess að komast undan því óskuðu eigendur Hótel Laxár eftir því að starfsmannahúsin yrðu metin ein og sér, en ekki í samhengi við hótelið sem þau fylgja. Þar með væri framkvæmdin undir þeim mörkum sem sett eru um ítarlegri hreinsun.

Þrátt fyrir að skýrsla stjórnvalda um viðbrögð við bágu ástandi Mývatns væri þá nýkomin út, samþykkti Skútustaðahreppur beiðni Hótels Laxár. Því mótmælti Heilbrigðiseftirlitið harðlega, og taldi það augljóslega ganga gegn reglum um fráveitu á svæðinu.

„Okkur þótti eiginlega bara fáranlegt að þar sem var komin upp stöð sem átti að vinna eins og þessar stöðvar eiga að gera. Vera þá að koma með einhverja rotþró eins og búnaðurinn var fyrir þessa breytingu á reglugerðinni eins og hann var 2012. En engu að síður var þetta gert en það var ekki með okkar vilja,“ sagði Þorkell Björnsson, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands Eystra.

Framkvæmdastjóri Landvarndar telur þessa undanþágu augljóslega fara í bága við lög og reglur.

„Framkvæmdaraðilinn er í rauninni að búta framkvæmdina niður í smærri einingar til þess að hver og ein eining sé líklegri til að sleppa við ströngustu kröfur sem að gilda í þessu tilfelli um mengunarbúnað.“

Oddviti Skútustaðahrepps segir vissulega hægt að líta svo á að hótelið og starfsmannaaðstaðan séu í raun partur af sömu starfsemi. Hins vegar hafi menn í þessu tilfelli fundið smugu í reglugerðinni.

„Þetta er svona. Þegar þú ert að fara í gegnum reglugerðirnar. Ertu að leita að smugunni eða ertu að fara í stóra heildarmynd? Það er bara þarna sem það liggur.“

Spurður hvort þessar undanþágur og eftirlit sveitarfélagsins með umhverfismálum í sveitarfélaginu, bæru þess vitni að lífríki Mývatns væri þar látið njóta vafans, sagði Yngvi Ragnar Kristjánsson oddviti Skútustaðahrepps:

„Ég held að menn hafi nú reynt að gera eins og þeir gátu. En eins og í öllum málum þá er alltaf hægt að gera betur. Okkur ber ákveðin skylda fyrst við njótum þess að vera við þetta vatn og þetta svæði, að hugsa vel um það reyna að ganga eins langt og við getum. Það finnst mér alla vega. Þannig að svarið við spurningunni er bæði já og nei.“

Fulltrúi heilbrigðiseftirlitsins gefur ákveðnara svar við sömu spurningu:

„Ef við horfum beint á hvernig þeir hafa framfylgt þessari reglugerð frá 2012, þá er svarið nei. Við höfum ítrekað gert kröfu um að sveitarfélaginu beri að vinna eftir þessari reglugerð. Það er engin undankoma frá því. Ég ætla ekki að hafa neina skoðun á því hvers vegna það er ekki gert. En staðreyndin er bara þessi. Það sem blasir við okkur sem eftirlitsaðila. Og auðvitað kemur að því á einhverjum tímapunkti að við verðum að segja hingað og ekki lengra. Það er alveg ljóst,“ sagi Þorkell Björnsson, heilbrigðiseftirliti Norðurlands Eystra.

Framkvæmdastjóri Landverndar telur tímabært að kalla stofnanir og ráðuneyti til ábyrgðar vegna aðgerðarleysis þeirra.

„Frárennslismálin eru í lamasessi og þar bera náttúrulega hóteleigendurnir mjög mikla ábyrgð en við verðum líta til hver er ábyrgð Umhverfisstofnunar sem að fer með umsjón þessa verndaða svæðis. Og það eru engin leyfi fyrir hótelum í tilfelli Laxár og Sels. Hvað með ábyrgð umhverfisráðuneytisins? Þannig að Mývatn er ekki að njóta vafans. Heldur hóteleigendur sem eru að græða á nálægðinni við þessa einu stærstu náttúruperlu okkar Íslendinga.“

Heimild: Ruv.is