Home Fréttir Í fréttum Krefja ríkið um 630 milljónir í bætur vegna hafnargarðanna

Krefja ríkið um 630 milljónir í bætur vegna hafnargarðanna

158
0

Minjastofnun hefur ekki viðurkennt tjón sem hlaust af skyndifriðun hafnargarðanna við Austurbakka í Reykjavík. ÞG-Verk, sem sér um framkvæmdir á Hafnartorgi, áætlar að tjónið vegna þessarar friðunar nemi 630 milljónum króna.

<>

Þegar framkvæmdir hófust við Hafnartorg, sem verður sex hæða íbúða- og verslunarbygging, vorið 2015 komu í ljós stærðarinnar skipsskrúfur og tveir hafnargarðar. Miklar deilur upphófust vegna hafnargarðanna og var kallað eftir því að hafnargarðarnir yrðu varðveittir.

Minjastofnun Íslands skyndifriðaði hafnargarðana 11. september árið 2015. Þurfti Minjastofnun að skila tillögum til þáverandi forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, vegna friðunarinnar.

Athugasemdir gerðar vegna vænhæfis Sigmundar Davíðs.
Sigrún Magnúsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra- og auðlindaráðherra, var settur forsætisráðherra í málinu eftir að borgarlögmaður hafði gert athugasemdir um vanhæfni Sigmundar Davíðs vegna athugasemda hans um hafnargarðinn.

22. október árið 2016 tók Sigrún ákvörðun um að friða hafnargarðana tvo.

Stein fyrir stein
Minjastofnun gerði síðar samkomulag við fyrirtækið sem sá um framkvæmdir við Hafnartorg um að færa nýja og gamla hafnargarðinn. Samkomulagið kvað á um að færa þyrfti gamla garðinn, sem reistur var árið 1928, stein fyrir stein. Vinna við að fjarlægja nýrri garðinn var ekki eins mikil, þar sem aðeins þurfti að merkja efstu röð hans sem var með sérhöggnu grjóti.

Gamli garðurinn var hins vegar allur með sérhöggnu grjóti og þurfti því að merkja hvert grjót þannig að hægt yrði að koma því aftur fyrir á nákvæmlega sama hátt og garðurinn var upprunalega reistur.

Fyrirtækið sem sá um framkvæmdirnar við Hafnartorg á þessum tíma hét Landstólpi þróunarfélag ehf. en skipti síðar um nafn og hét eftir það Reykjavík Development.

Í apríl árið 2016 keypti Arcus ehf, systurfélag verktakafyrirtækisins ÞG Verk, Reykjavík Development og eignaðist þar af leiðandi verkið við Hafnartorg. DV sagði frá því að Arcus hefði greitt fjóra milljarða fyrir Reykjavík Development. Þar kom jafnframt fram að Reykjavík Developmennt hefði keypt byggingarreitinn Hafnartorg fyrir 1,7 milljarða króna árið 2014.

Tjónið upphaflega metið á 500 milljónir króna
Í desember árið 2015 sagði Gísli Steinar Gíslason, forstjóri Reykjavík Development, að áætlaður kostnaður við að færa nýja og gamla hafnargarðinn næmi um 500 milljónum króna og sagði fyrirtækið ætla að gera kröfu á ríkið.

Minjastofnun svaraði þeim orðum Gísla á þann veg að fyrirtæki hans hefði mátt vera ljóst frá upphafi af fyrirliggjandi gögnum hver kostnaður af flutningi verndaðra minja við Reykjavíkurhöfn yrði. Sagði Minjastofnun að kostnaður stofnunarinnar af verndun hafnargarðanna yrði enginn nema launakostnaður starfsmanna Minjastofnunar við eftirlit með verkinu.

Reyna að finna skynsamlega útfærslu á uppsetningu garðanna
Bjarki Þór Sveinsson, lögmaður ÞG Verks, segir kröfunni haldið til streitu er varðar bætur vegna friðunar hafnargarðanna. Enn séu viðræður í gangi við Minjastofnun um hvaða farveg málið verður sett.

Hann segir að sátt sé um það á milli ÞG Verks og Minjastofnunar að reyna að lágmarka frekara tjón. Er í því fólgið meðal annars að finna skynsama útfærslu á uppsetningu hafnargarðanna tveggja þannig að minna tjón hljótist af en áður var talið.

Hins vegar stendur eftir það tjón sem nú er þegar orðið en líkt og áður kom fram metur ÞG Verk tjónið á 630 milljónir króna. Minjastofnun hefur ekki viðurkennt það tjón og útilokar Bjarki Þór ekki að sú krafa gæti endað fyrir dómstólum.

Heimild: Visir.is