Mikil og metnaðarfull uppbygging er nú hafin í Ölfusi og framundan eru spennandi tímar. Öflug þróun atvinnulífs og vaxandi eftirspurn eftir nýju íbúðarhúsnæði kalla á breytingar sem munu gjörbreyta ásýnd Þorlákshafnar á næstu árum.
Eitt af lykilverkefnunum í þessari uppbyggingu er nýr miðbær Þorlákshafnar. Fyrsta skóflustungan var tekin fyrir um ári síðan í þessu metnaðarfulla verkefni, sem markar nýjan kafla í þróun bæjarins. Í hjarta hins nýja miðbæjar rísa fjölbreyttar byggingar með íbúðum, verslunum, veitingastöðum, þjónusturýmum og menningarsal. Við aðaltorgið verður opið svæði þar sem íbúar geta hist, notið sólar á sumrin og skautasvells á veturna.
Annar áfangi miðbæjaruppbyggingarinnar verður meðfram Óseyrarbraut, milli núverandi byggðar og hafnarsvæðis. Sveitarfélagið auglýsti eftir samstarfsaðila til þróunar svæðisins árið 2023, og voru félögin Ísold fasteignir og Íslenskar fasteignir valin til samstarfs við skipulagsyfirvöld í Ölfusi og Nordic Office of Architecture sem skipulagshönnuðir.
Ný byggð við Óseyrarbraut mun tengjast miðbænum meðfram Selvogsbraut og mynda þannig skýra tengingu milli eldri og nýrri hverfa bæjarins. Markmiðið er að skapa fjölbreytta og blandaða íbúðabyggð sem hentar ólíkum hópum samfélagsins og styrkir heildarmynd Þorlákshafnar. Lögð er áhersla á sameiginleg útisvæði sem hvetja til félagslegra samskipta og stuðla að sjálfbærum lífsstíl.
Með þessari uppbyggingu verður til skýr afmörkun og tenging byggðar, hafnarsvæðis og náttúru, sem gerir svæðið aðlaðandi og lifandi. Byggðin verður vistvæn og mannvæn, þar sem Óseyrarbrautin gegnir lykilhlutverki sem hluti af vistási miðbæjarins með góðum tengingum fyrir gangandi og hjólandi.
Sveitarfélagið Ölfus leggur ríka áherslu á að skipuleggja barnvæn svæði í nágrenni skóla, íþróttaaðstöðu, sundlaugar, bókasafns og annarrar grunnþjónustu. Nálægð nýja hverfisins við alla helstu þjónustu gerir það að sannkölluðu 10 mínútna hverfi fjölskyldufólks.

Hjúkrunarheimili og tenging við aðra byggð
Í tengslum við þróunarverkefnið hafa bæjaryfirvöld kynnt áform um byggingu hjúkrunarheimilis á mörkum byggðar við Óseyrarbraut. Með þessu býður sveitarfélagið stjórnvöldum í öldrunarmálum upp á ákjósanlegan valkost til að mæta brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými á komandi árum.
Tilkoma heimilisins mun skapa tengingu nýrrar byggðar við öldrunarkjarnann við Egilsbraut og styrkja þannig aðgengi og samgang eldri borgara við önnur hverfi og samfélagið í heild.
Sterkir bakhjarlar og framtíðarsýn
Að baki verkefninu við Óseyrarbraut standa aðilar með mikla trú á framtíð Þorlákshafnar. Bakhjarlar Ísoldar standa jafnframt að landeldisfyrirtækinu GeoSalmo sem undirbýr eina umfangsmestu eldisstöð landsins með árlega framleiðslugetu allt að 33.000 tonna. Fyrirtækið hefur lokið umhverfismati og gert samning við Orku náttúrunnar um allt að 28 MW raforku. Íslenskar fasteignir vinna jafnframt að þróun hótels og afþreyingarstarfsemi við Hafnarvík, í nánu samráði við bæjaryfirvöld og íbúa. Skipulagsferlið er á lokastigi og stefnt er að því að framkvæmdir hefjist á næsta ári.
Heimild: Dfs.is
 
		 
	





