Home Fréttir Í fréttum Bæjarfulltrúi gagnrýndi flata kvisti harðlega

Bæjarfulltrúi gagnrýndi flata kvisti harðlega

201
0
Mynd: Björt Framtíð/Kollgáta - RÚV
Byggingar á Drottningarbrautarreitnum svokallaða í Akureyrarbæ hafa verið nokkuð umdeildar meðal bæjarbúa, en þar hefur verið stefnt að uppbyggingu í nokkur ár. Bæjarfulltrúinn Preben Jón Pétursson hefur nú bæst í hóp gagnrýnenda vegna breytinga sem hann segir að gerðar hafi verið á kvistum bygginganna.

Sömuleiðis heyrðust kvartanir frá bæjarbúum vegna útlits bygginganna, en áformað er að byggja þrjú íbúðarhús og hótel. Íbúar sem bjuggu þá í næstu götu við reitinn kvörtuðu undan því að útsýni yrði skert og sömuleiðis vegna fækkunar bílastæða.

<>

Kvistarnir öðruvísi en kynnt var

Preben Jón, sem er bæjarfulltrúi Bjartrar framtíðar, vakti svo athygli á því á bæjarstjórnarfundi í síðasta mánuði að breytingar hefðu orðið á húsunum sem ekki hefðu farið fyrir bæjarstjórn. Hann tók til máls undir lið þar sem fjallað var um breytingu á deiliskipulagi í Naustahverfi vegna byggingar sólskála við einbýlishús og sagði það undarlegt að slíkt kæmi fyrir bæjarstjórn, en breytingar á útliti húsa sem væru svo umdeild kæmu ekki inn á borð hennar.

„Þar er gert deiliskipulag, eftir kynningu í janúar þar sem íbúum var sýnt útlit húsa sem átti að byggja þar. Framkvæmdaaðilar óska eftir deiliskipulagsbreytingum sem var gert í mars, allt í góðu með það. Svo er gefið út framkvæmdaleyfi fyrir þessari byggingu og þá er hún öðruvísi heldur en kynnt var fyrir íbúum og fyrir skipulagsnefnd á þeim tíma,“ sagði Preben á bæjarstjórnafundi þann 18. janúar, en sjá má upptöku frá fundinum hér að neðan. Preben kemur í pontu þegar ein mínúta og 35 sekúndur eru liðnar af myndskeiðinu.

Myndband af bæjarstjórnarfundi

Breyting sem fór leynt fyrir bæjarbúum

Preben segir að þarna sé það álitamál hvort þessi breyting á byggingunum hafi verið deiliskipulagsbreyting eða ekki. Það sé að hans mati á ábyrgð bæjarstjórnar, hvernig hús skuli byggja á þessum reit. Breytingin sem Preben vísar til snýr að kvistum á húsunum.

„Það var köttað af, öllum kvistum, þar sem átti að setja hornkvista, 45 gráðu horn. Það var köttað af seinna og settir flatir kvistar á allt húsið. Ég er ekkert endilega viss um að bæjarbúar viti það, því á kynningunni þegar kynningin kom þá voru settir hornkvistar. Svo kom framkvæmdaleyfið og þá var búið að taka þetta allt af og þetta er deiliskipulagsbreyting. Það kom ekki fyrir bæjarstjórn, af því að það er mat sumra að þetta skuli ekki vera deiliskipulagsbreyting,“ sagði Preben. Hann velti því síðan fyrir sér hvernig hótelið, sem áætlað er að rísi þarna en ekki er búið að hanna, muni líta út.

„Berum ábyrgð á útliti bæjarins“

„Verður þá enn þá meira skorið af? Við höfum ekkert um það að segja,“ sagði Preben. Því næst minntist hann á byggingu sem búið væri að samþykkja deiliskipulag fyrir á siglingasvæði Nökkva, rétt sunnan við Drottningarbrautarreitinn. „Þar hefur bæjarstjórn ekkert um málið að segja, það má byggja þarna hvað sem er, “ sagði Preben.

„Við berum ábyrgð á útliti bæjarins, en að við skulum vera að bera ábyrgð á því hvernig sólskáli skuli vera byggður við einbýlishús eða bílskúr sem er settur einhvers staðar í bænum, án þess að gera lítið mál úr því þá finnst mér það smámál miðað við svona mál,“ sagði Preben.

Engar sérstakar kröfur um kvisti í deiliskipulaginu

Samkvæmt deiliskipulaginu er það þó svo að ekki eru gerðar sérstakar kröfur um hvort kvistir nýbygginganna við Drottningarbraut skuli vera flatir efst eða hornlaga. Í skipulaginu, sem var samþykkt árið 2012 og þó nokkrar breytingar hafa verið gerðar á síðan, segir að byggingarnar þurfi að vera í samhengi við eldri byggð. Ekki eru gerðar sérstakar kröfur um form að öðru leyti, en hvort sem þær verða hannaðar samkvæmt nútímalegri byggingarlist eða gömlum stíl. Þó eru gerðar kröfur um efnis- og litaval. Í breytingunni sem Preben vísar til og var samþykkt fyrir tæpu ári síðan, er aðeins minnst á stærð kvista en ekki útlit þeirra.

Deiliskipulag er ekki til þess gert að segja nákvæmlega til um endanlegt útlit þeirra bygginga sem eiga að rísa innan þess heldur um stærð og lögun þeirra. Hönnuðir húsa vinna síðan eftir því til að skapa endanlegt útlit. Eins og sést á myndunum hér að neðan er ekki mikill munur á deiliskipulagsmyndinni og myndinni af endanlegri hönnun þeirra. Sú fyrri var til að kynna hugmyndir um útlit þess áður en hönnun var lokið að fullu en þar eru kvistir bæði flatir og hornlaga. Að lokum voru þeir aðeins teiknaðir flatir.

Heimild: Ruv.is