Home Fréttir Í fréttum Borgin ræðst í stórfellda uppbyggingu í Úlfarsárdal

Borgin ræðst í stórfellda uppbyggingu í Úlfarsárdal

55
0
Séð yfir Úlfarsárdal.

Reykjavíkurborg hyggur á stórfellda uppbyggingu í Úlfarsárdal á næstu árum. Framlög til uppbyggingarinnar verða tvöfölduð og er áætlaður kostnaður 9,8 milljarðar króna.

<>

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynnti fyrirætlanir borgarinnar á íbúafundi sem haldinn var í Úlfarsárdal.

Borgarstjóri kynnti byggingu á leik- og grunnskóla, bókasafni, menningarmiðstöð og íþróttaaðstöðu í Úlfarsárdal en  hin nýja miðja mun þjóna íbúum í Grafarholti og Úlfarsárdal.

Tíma- og kostnaðaráætlun verkefnisins var á dagskrá borgarráðs fyrr um daginn og upplýsti borgarstjóri fundargesti um að allir fulltrúar í borgarráði hafi samþykkt tvöföldum framlaga til byggingarinnar í fimm ára áætlun – úr fjórum milljörðum í átta.

Framkvæmdirnar í Úlfarsárdal eru því stærsta einstaka framkvæmd borgarinnar og mun framkvæmdakostnaður nema um 9,8 milljörðum króna en heildarbyggingamagn er um 15.500 fermetrar.

Áætlanir gera ráð fyrir að hönnun muni ljúka og framkvæmdir hefjist á þessu ári en  á fundi borgarráðs í gær var heimilað að ganga frá samningum um fullnaðarhönnun byggða á verðlaunatillögu.

Dagur sagði að skólahúsnæðið væri í forgangi og í samræmi við óskir íbúa. Byrjað verður á framtíðarhúsnæði leikskólans og verður það tilbúið til notkunar haustið 2016 en þá fyrst í stað notað fyrir grunnskólakennslu svo ekki þurfi að bæta við fleiri færanlegum kennslustofum við Dalskóla. Samhliða vinnu við 1. áfanga hefjast framkvæmdir við  2.  áfanga skólahúsnæðis og er gert ráð fyrir að honum verði lokið haustið 2018.  Í 3. áfanga, sem hægt er að vinna að samhliða 2. áfanga,  verður íþróttahúsnæðið byggt og taka tímaáætlanir þar mið af samningum við íþróttafélagið Fram en þær viðræður standa nú yfir. Dagur sagðist gjarnan vilja sjá samkomulag í höfn á næstu dögum.

Áfangi 4 tekur svo til menningarhluta hússins, bókasafns og sameiginlegs rýmis, en í 5. og síðasta áfanga kemur sundlaugin og á verkinu í heild á að verða lokið árið 2022.

Í sumar hefjast framkvæmdir við Fellsveg með brú yfir Úlfarsá og með hinni nýju vegtengingu milli Grafarholts og Úlfarsárdals batna samgöngur innan hverfis og milli þeirra til muna.

Samgöngur út úr hverfinu verða einnig bættar, en á gatnamótum Reynisvatnsvegar, Víkurvegar og Vesturlandsvegar verður akgreinum fjölgað og umferðarljósastýringu breytt.

Heimild: Eyjan.is