Framkvæmdun við stækkun metanólverksmiðju Carbon Recycling International (CRI) við Svartengi lauk nú fyrir skömmu og af því tilefni var haldin glæsileg verklokahátíð í gær í Eldborg, móttökusal HS Orku við orkuverið í Svartsengi. Margir góðir gestir af ýmsum þjóðernum þáðu boð um að mæta, þ.á.m. bandaríski sendiherrann sem flutti ávarp og kínverski sendiherrann.
K-C Tran, forstjóri Carbon Recycling, færði helstu samstarfsaðilum þakklætisvott og veitti Róbert Ragnarsson bæjarstjóri þeim viðtöku fyrir hönd bæjarins.
Frétt rúv.is um málið:
„Metanólverksmiðja Carbon Reycycling í Svartsengi þrefaldaði framleiðslu sína í dag. Áætlanir eru uppi um 10-20 sinnum stærri verksmiðju þegar fram líða stundir.
Í verksmiðju Carbon Recycling er blandað saman koltvísýringi úr útblæstri virkjunar HS Orku í Svartsengi, og vetni sem myndast þegar vatn er klofið með rafgreiningu. Úr því er búið til metanól sem er nýtt til að framleiða lífdísel og íblöndunarefni í bensín.
Stækkunin var formlega sett í gang í dag við hátíðlega athöfn. Hún er nú orðin fjórar og hálf milljón lítrar á ári.
K-C Tran, forstjóri Carbon Recycling, segir að á Íslandi séu allir þættir fyrir hendi fyrir slíka verksmiðju. Hreint vatn, hreint eldsneyti og hrein orka. Einnig starfskraftur til að vinna slíkt verkefni.
Evrópusambandið stefnir að því að 10 prósent af eldsneyti verði endurnýjanlegt.
„Það má segja að sú þróun hefur tekið heldur lengri tíma að skila sér á markaðinn heldur en upphaflega stóðu vonir til. Það er engu að síður ljóst að þessu verður fullnægt og nýjar samþykktir Evrópusambandsins eru bara til að undirstrika það”, segir Sindri Sindrason, stjórnarformaður Carbon Recycling.
Sindri segir að salan fyrir framleiðslu þessarar verksmiðju sé þó nokkuð tryggð.
Tran hefur trú á því að metanól verði framtíðareldsneytisgjafi. Og framtíðaráformin eru stór. Stefnt sé að því að reisa verksmíðju sem sé 10-20 sinnum stærri en núverandi verksmiðja og framleiði 50-100 milljónir lítra á ári.“
Heimild: Grindavik.is