Home Fréttir Í fréttum Ótækt að lífeyrissjóðir styðji við leigufélög

Ótækt að lífeyrissjóðir styðji við leigufélög

104
0
Það er ótækt að lífeyrissjóðir styðji við leigufélög sem kaupi upp lausar íbúðir á markaðnum í stað þess að hjálpa sjóðfélögum að eignast þak yfir höfuðið. Þetta segir formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Hann hvetur lífeyrissjóði og fjármálastofnanir til að hugsa sinn gang.

Greiningardeild Arion-banka telur að allt að þrjú þúsund íbúðir vanti á næstu tveimur árum, umfram það sem er í byggingu eða stendur til að byggja. Umsvif leigufélaga á húsnæðismarkaði hafa aukist verulega á síðustu árum. Fréttatíminn greindi frá því í desember að Gamma ætti í gegnum leigufélög meira en ellefu hundruð íbúðir á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Þá kom fram í fréttum RÚV í desember í fyrra að Heimavellir eigi 1700 íbúðir og hafi að auki keypt 350 íbúðir sem leigðar verða út síðar á þessu ári.

<>

„Ég verð að segja að mér finnst þetta mjög slæm þróun því leigufélögin eru í samkeppni við einstaklinga á markaðnum, fyrstu íbúðakaupendur, eldri borgara og allt þar á milli. Þannig að ég er mjög ósáttur við þessa þróun,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og bæjarstjóri í Kópavogi. „Ég get nefnt sem dæmi hér í Kópavogi að ég er að heyra það í þessum nýbyggingum okkar að það séu aðilar farnir að bjóða í heilu blokkirnar í hverfum sem við klárlega hugsuðum fyrir barnafjöldum eða eldri borgara til að kaupa,“ segir Ármann.

Hann gagnrýnir að leigufélöginn kominn inn á markaðinn þegar íbúðaskortur sé jafnmikill og nú. „Þeir eru miklu sterkari aðili. Hver á keppa við þessa fjársterku aðila? Þannig að þeir eru að þrýsta bæði upp kaupverðinu og svo ráða þeir yfir leigumarkaðnum líka, og hvað gerist þá? Þá þrýsta þeir líka upp leiguverðinu,“ segir Ármann.

Hann kallar bankana einnig til ábyrgðar. „Mér finnst nú líka fjármálastofnanir hafa samfélagslegar skyldur og þurfa að hugsa um það að vera ekki endalaust að dæla peningum inn í þessi leigufélög og lífeyrissjóðirnir líka. Í staðinn að vera að styðja við bakið á sínu fólki þá gera þeir það með þessum hætti því við vitum að þessi leigufélög eru ekki að fara að leiga neitt ódýrt, þau leigja á eins háu verði og þau geta. Svo ertu með aðila eins og ASÍ sem eru sjálfir eigendur að leigufélagi og þá eiga ríki og sveitarfélög að koma með niðurgreidda peninga. Þetta er soldið tvöfalt hlutverk sem maður sér þá þarna í, sitjandi í lífeyrissjóðum, lánandi sterkum fyrirtækjum sem eru að kaupa og þurrka upp markaðinn og koma svo hinu megin og segja: heyrðu við þurfum að fá niðurgreitt fé frá ríki og sveitarfélögum. Þetta er svolítið sérstakt,“ segir Ármann.

Heimild: Ruv.is