Home Fréttir Í fréttum Fimm tilboð bárust í Dýrafjarðargöng

Fimm tilboð bárust í Dýrafjarðargöng

136
0
Gangamunninn Arnarfjarðarmegin verður skammt frá Mjólkárvirkjun. Mynd: GRAFÍK/VEGAGERÐIN.
Suðurverk hf. og Metrostav a.s. frá Tékklandi áttu lægsta tilboðið í gerð Dýrafjarðarganga en opnað var fyrir tilboð í húsakynnum Vegagerðarinnar í Borgartúni í Reykjavík í dag. Tilboð fyrirtækjanna er 8,7 milljarðar króna sem eru rúm 93 prósent af kostnaðaráætlun. Næstu tilboð voru um 630 milljónum hærri, nánast jafnhá og kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir.

Fimm skiluðu tilboði

Mikill áhugi var á forvali Dýrafjarðarganga sem fór fram síðasta sumar og sóttu sjö verktakahópar um að taka þátt í útboðinu og voru allir metnir hæfir. Fimm þeirra skiluðu inn tilboði en fjögur þeirra hafa reynslu af jarðgangagerð á Íslandi. Suðurverk og Metrostav vinna nú að gerð Norðfjarðarganga. Næst lægstu tilboðin í verkið komu annars vegar frá C.M.C di Ravenna frá Ítalíu og hins vegar frá Ístaki í samvinnu við Per Aarsleff frá Danmörku. Tilboð þessara fyrirtækja námu 9,3 milljörðum og voru næst kostnaðaráætlun. Þá bárust tilboð frá Íslenskum aðalverktökum hf. í samstarfi við Marti Contractors frá Sviss sem var 10,5 milljarðar og 113 prósent af kostnaðaráætlun og frá LNS Sögu og Leonhard Nilsen & Sönner As frá Noregi en tilboð þeirra var 10,9 milljarðar króna og 116,6 prósent af kostnaðaráætlun.

<>

Ráðist í samningaviðræður

Á næstu vikum verður farið yfir tilboð lægstbjóðenda, Suðurverks hf. og Metrostav a.s., og ráðist í samningagerð. Að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, má gera ráð fyrir því að nokkrar vikur taki þar til gengið verður til samninga.

5,6 kílómetra göng

Framkvæmd Dýrafjarðarganga felur í sér lagningu nýs vegar og nýrra ganga á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar á Vestfjörðum, frá Mjólkárvirkjun í Arnarfirði að Dýrafjarðarbrú. Gert er ráð fyrir 8,1 kílómetra vegi og 5,6 kílómetra löngum göngum, alls 13,7 kílómetrum af nýjum vegi.

Hafa beðið lengi

Vestfirðingar hafa beðið eftir Dýrafjarðargöngum um margra ára skeið en með göngunum verða til heilsárssamgöngur á milli norðanverðra og sunnanverðra Vestfjarða. Þá styttist vegalengdin þar á milli um 400 kílómetra yfir háveturinn. Göngin leysa af hólmi erfiðan fjallveg um Hrafnseyrarheiði sem er jafnan ófær yfir háveturinn. Vestfirðir eru eitt þjónustusvæði. Umdæmi lögreglustjórans á Vestfjörðum nær yfir alla Vestfirði og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða þjónustar íbúa bæði á sunnanverðum og norðanveðrum Vestfjörðum – þrátt fyrir skort á heilsárssamgöngum.

Tvísýnt með Dýrafjarðargöng

Dýrafjarðargöng komust á samgönguáætlun sem var samþykkt rétt fyrir kosningar haustið 2016. Það runnu þó tvær grímur á fólk þegar ekki var gert ráð fyrir nægilegu fjármagni í gangagerð samkvæmt fjárlagafrumvarp ársins 2017. Samkvæmt fjárlögum var gert ráð fyrir 300 milljónum í Dýrafjarðargöng en samkvæmt samgönguáætlun var gert ráð fyrir 1,5 milljörðum til að hefja framkvæmdir við göngin árið 2017. Fór svo að lokum að fjárlaganefnd bætti Dýrafjarðargöngum við fjárlagafrumvarp ársins 2017 sem var samþykkt á Alþingi. 

Heimild: Ruv.is

Previous articleEkkert fjármagn í nýtt flughlað á Akureyri
Next articleNagandi óvissa um Dettifossveg