Home Fréttir Í fréttum Nagandi óvissa um Dettifossveg

Nagandi óvissa um Dettifossveg

341
0
Dettifossvegur Vegkaflinn sem um ræðir er 18 km.

„Niðurstöðu að vænta fljótlega,“ segir nýr ráðherra – Byggðin á mikið undir veginum.

<>

Óvissa er enn uppi um framtíð síðasta áfanga Dettifossvegar, sem heimamenn á norðausturhorninu hafa beðið eftir í ofvæni mörg undanfarin ár. Samþykkt var í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í september að klára Dettifossveg innan tveggja ára. Þá eru áform í uppnámi síðan í ljós kom að ekki er gert ráð fyrir fjárveitingu til framkvæmdarinnar í fjárlagafrumvarpi ársins.

„Staðan er sú varðandi Dettifossveg að ekki gætti samræmis í afgreiðslu samgönguáætlunar og niðurstöðu fjárlaga fyrir 2017. Við erum þessa dagana að fara yfir forgangsröðun þess fjármagns sem kom á fjárlögum og er niðurstöðu í því að vænta fljótlega,“ segir Jón Gunnarsson, nýr samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í svari til DV.

Eins og DV hefur greint frá hefði tilkoma vegarins mikla þýðingu fyrir sveitarfélög í Norðurþingi en Raufarhöfn og Kópasker eru á lista yfir brothættar byggðir.

Um er að ræða stuttan vegkafla sem tengir saman Dettifoss og Ásbyrgi án þess að fara þurfi um langan veg, í gegnum Mývatnssveit, Húsavík og Tjörnes. Búið er að byggja upp veginn frá jökulsárbrú að Dettifossi að ofanverðu og unnið er að uppbyggingu vegarins frá Ásbyrgi að Vesturdal eða Hljóðaklettum. Á milli Hljóðakletta og Dettifoss er 18 kílómetra ókláraður kafli. Í dag er um að ræða niðurgrafinn moldarveg, að stórum hluta, sem ekki er fær nema yfir hásumar.

DV ræddi við ferðaþjónustubændur í Öxarfirði síðastliðið vor vegna málsins. Í máli þeirra kom fram að vegurinn gæti haft gríðarmikla þýðingu hvað framtíð byggðarinnar við Öxarfjörð varðar. Lagning vegarins opnaði mikilvæga gátt ferðamanna ofan í Öxarfjörð – með tilheyrandi tekjum og atvinnusköpun. Heimamenn sem DV hefur rætt við vegna málsins eru uggandi vegna óvissunnar.

Sjá einnig: Hingað koma engir peningar

Þegar nefndin samþykkti framkvæmdirnar í haust ræddi DV við Ævar Ísak Sigurgeirsson, verslunareiganda í Ásbyrgi, en í fyrra gerðist það, þrátt fyrir vaxandi ferðamannastraum á flesta staði, að Ísak varð að hafa verslunina lokaða yfir vetrartímann. Hann sagði um veginn: „Ég yrði óskaplega hamingjusamur með það. Þegar ég sé tækin komin á staðinn þá fagna ég. Ekki fyrr.“

Öxarfjörður hefur frá upphafi farið á mis við meginþunga ferðamannastraumsins, utan hásumars, vegna skort á heilsársvegi frá Mývatni, um Dettifoss, niður í Ásbyrgi.

Heimild: Dv.is