Home Fréttir Í fréttum Jáverk fær 120 milljónir vegna Hús íslenskra fræða

Jáverk fær 120 milljónir vegna Hús íslenskra fræða

527
0
Mynd: arnastofnun.is
Alþingi samþykkti skömmu fyrir þinglok um jólin að verktaki, sem átti lægsta boðið í Hús íslenskra fræða, fengi 120 milljónir í skaðabætur þar sem ekkert hefur orðið af framkvæmdum við húsið. Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar, viðurkennir í samtali við fréttastofu að þetta sé ekki góð meðferð á opinberum fjármunum.

Samkvæmt nefndaráliti fjárlaganefndar var gerð tillaga um 120 milljóna króna heimild vegna greiðslu skaðabóta til verktaka sem vann að undirbúningi að byggingu Húss íslenskra fræða, eins og það er orðað.

<>

Haraldur segir að eins og málið hafi verið kynnt fyrir nefndinni hafi verið búið að ná samkomulagi við verktakann – hann hafi haft þessa réttarstöðu og þessi upphæð hafi verið lendingin. Hann viðurkennir að þetta sé ekki góð meðferð á opinberum fjármunum.

Verktakafyrirtækið Jáverk átti lægsta tilboðið en það hljómaði uppá tæpa fjóra milljarða.

Árið 2013 gerði þáverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna ráð fyrir að verja 800 milljónum í framkvæmdir við húsið en þær áttu að vera hluti af fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar.

Fyrsta skóflustungan var tekin í mars fyrir þremur árum og framkvæmdir áttu að hefjast í júní það sama ár. En ekkert gerðist – ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sló upphæðina út af borðinu og eftir stóð það sem kallað var  „hola íslenskra fræða.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, lagði síðan til í apríl á síðasta ári að íslenska þjóðin fengi nýtt hús íslenskra fræða að gjöf í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands árið 2018. En sú tillaga var aldrei afgreidd úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins.

Í fjármálaáætlun fyrir árin 2017 til 2021 var gert ráð fyrir að framkvæmdir við húsið kláruðust á því tímabili og áttu 3,7 milljarðar að renna til verkefnisins. Ekki er þó gert ráð fyrir framlagi til framkvæmdanna á fjárlögum næsta árs.

Heimild: Mbl.is