Home Fréttir Í fréttum „Ástand veganna stórhættulegt“

„Ástand veganna stórhættulegt“

92
0
Mynd: Akureyri vikublað

Oddviti Húnavatnshrepps segir ástand malarvega í sveitarfélaginu aldrei hafa verið verra. Slitlag sé farið og holur séu djúpar. Sveitarstjórnin krefst þess að fjárveitingarvaldið bregðist við.

<>

„Ég man ekki eftir þessu svona slæmu,“ segir Þorleifur Ingvarsson, oddviti Húnavatnshrepps, um ástand malarvega í sveitarfélaginu sem hann segir skelfilegt.

„Í bleytutíð eins og hefur verið í haust kemur í ljós margra ára skortur á eðlilegu viðhaldi. Á einstaka stað, þar sem vegirnir hafa verið yfirkeyrðir og heflaðir er ástandið mun skárra en þar sem vegirnir hafa ekki fengið eðlilegt viðhald er ástand þeirra stórhættulegt.

Þar eru djúpar holur, allt að tíu sentimetra, og allt slitlag farið,“ segir Þorleifur og bætir við að líklega sé ástandið í Húnvatnshreppi ekkert einsdæmi.

En við erum með mjög mikið af malarvegum og umferðin er alltaf að aukast. Svo villast útlendingar inn á þessa vegi og kunna ekki að keyra við svona aðstæður fyrir utan að þetta stórskemmir bílana. Ástandið er orðið það slæmt að skólabílstjórar hafa þurft að breyta tímaplönum. Bílarnir fara svo hægt um þessa vegi að allar áætlanir raskast.

Viðhaldi ábótavant

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps gerir þá kröfu til fjárveitingarvaldsins að brugðist verði við því ófremdarástandi sem skapast hefur vegna fjársveltis til vegamála á landsbyggðinni.

„Ástandið hefur farið síversnandi frá 2008. Viðhaldi hefur verið mjög ábótavant og að sögn vegagerðarmanna hefur krónutala fjárveitingar til viðhalds haldist sú sama ár eftir ár. Það gengur náttúrlega ekki,“ segir Þorleifur sem skorar á Alþingi að tryggja fulla fjármögnun á samgönguætlun sem nýbúið er að samþykkja.

Við vonum bara að það fari að koma snjór svo þessar holur fyllist af vatni og það frjósi í þeim. Það er ansi undarlegt þegar maður er farinn að óska eftir hálku.

Heimild: Akureyri vikublað