Home Fréttir Í fréttum Telja að skaðabótakrafa geti myndast ef framkvæmdir tefjast

Telja að skaðabótakrafa geti myndast ef framkvæmdir tefjast

181
0

Verktakafyrirtækið Hagtak átti lægsta boð í hafnarframkvæmdir við Miðgarð í Grindavík. Tilboðið hljóðar upp á 283.625.000 krónur sem er um 71,3% af kostnaðráætlun Siglingasviðs Vegagerðarinnar.

<>

Ekki er þó víst að af framkvæmdum verði næstu misserin þar sem mögulega verður dregið úr fjárframlögum til Hafnabótasjóðs í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017.

Hafnarstjórn Grindavíkur telur að skaðabótakrafa geti myndast á Grindavíkurbæ og Vegagerðina ef framkvæmdum verður frestað. Hafnarstjórnin sendi bréf þessa efnis á fjárlaganefnd Alþingis þar sem stjórnin lýsir áhyggjum sínum af þessari þróun.

Grindavíkurhöfn hefur þegar fest kaup á stálþili sem nota á við verkið auk þess sem töluverðir fjármunir hafa verið lagðir í hönnun og undirbúning framkvæmda.

Bréf Hafnarstjórnarinnar í heild sinni má finna hér fyrir neðan:

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017 eru áætlaðar 212,4 milljónir króna í Hafnabótarsjóð.

Í Samgönguáætlun 2015-2018 sem ríkisstjórnin lagði fram 18. mars 2016 voru áætlaðar 752 milljónir króna í Hafnarbótasjóð árið 2017.

Meirihluti Umhverfis – og Samgöngunefndar lagði til breytingatillögu um að hækka framlög í Hafnarbótasjóð í 1.158 milljónir fyrir árið 2017 sem samþykkt var í Alþingi 12 október 2016.

Siglingasvið Vegagerðarinnar og Grindavíkurhöfn hafa undanfarin ár unnið við undirbúning og hönnun á Miðgarði í samræmi við ofangreindar áætlanir.
Þar að auki hefur hafnarstjórn stuðst við nefnadarálit meirihluta fjárlaganefndar við fjárlög árið 2016, sem var samþykkt á Alþingi 19. desember 2015. Þar kemur skýrt fram að átak í endurnýjun á stálþilum taki allt að þrjú ár.

Hafnarstjórn hefur í góðri trú, og í samvinnu við Siglingasvið Vegagerðarinnar, þegar keypt stálþilið og boðið út niðurrekstur á því. Þann 28 nóvember síðastliðinn voru tilboð opnuð og átti verktakafyrirtækið Hagtak hf. lægsta tilboðið.

Tilboð Hagtaks hljóðar upp á 283.625.000 kr. eða 71,3% af kostnaðaráætlun hönnuða Siglingasviðs Vegagerðarinnar, sem verður að teljast mjög hagstætt tilboð. Ljóst er að ríkið og Grindavíkurhöfn munu skapa sér skaðabótakröfu af hálfu verktaka ef verkinu verður frestað. Hafnarstjórn Grindavíkur vill standa við gerða samninga.

Úr Nefndaráliti meirhluta fjárlaganefndar um hafnarframkvæmdir árið 2015
“Meiri hlutinn gerir tillögu um 400 milljóna kr. viðbótarfé í Hafnabótasjóð til endurnýjunar á bryggjum og dýpkunar í löndunarhöfnum. Frá árinu 2008 hefur endurbyggingu bryggja lítið verið sinnt en þónokkrar bryggjur í löndunarhöfnum eru orðnar hættulegar þar sem burðargeta þeirra er ekki lengur nægjanleg.

Oftast er um að ræða stálþilsbryggjur þar sem efnisþykkt þils var í upphafi um 10 mm en vegna tæringar er þykkt þils komin niður í um 2,4 mm meðalþykkt við stórstraumsfjöruborð.
Það þýðir að þilin eru mjög götótt á köflum sem gerir það að verkum að komi fullt álag á þessar bryggjur eða hreyfing á jarðveginn, t.d. vegna jarðskjálfta, eru verulegar líkur á að þær gefi sig.

Allar bryggjurnar eru enn í fullri notkun þrátt fyrir að teljast hættulegar að mati Vegagerðarinnar. Gert er ráð fyrir að framkvæmdatími samkvæmt tillögunni verði 1-3 ár. Gera má ráð fyrir að efniskaup geti tekið allt að sex mánuði og nemi um 25-30% af kostnaði.
Lagt er til að Vegagerðin noti þetta viðbótarframlag til að flýta framkvæmdum í viðkomandi höfnum þannig að hægt verði að sameina efniskaup og hefja framkvæmdir árið 2016 þar sem mögulegt er. Lögð er áhersla á að leitað verði eftir sameiginlegu tilboði í stálþil vegna þessara framkvæmda.”

Hafnarstjórn Grindavíkur fer hér með fram á að Hafnabótasjóði verði gert kleift með viðbótarfjármagni að klára endurnýjun stálþila í fiskihöfnum landsins eins og segir í meirihlutaáliti fjárlaganefndar hér að ofan.

Heimild: Suðurnes.net