Home Fréttir Í fréttum Ný brú yfir Eldvatn komin á kortið

Ný brú yfir Eldvatn komin á kortið

281
0
Þrívíddarmynd af nýrri brú og vegtengingu Teikning/Guðmundur Valur Guðmundsson

Vegagerðin hefur kynnt framkvæmdir á Skaftártunguvegi þar sem fyrirhugað er að byggja nýja brú yfir Eldvatn, skammt neðan núverandi brúar.

<>

Fyrirhugað er að byggja nýja 78 m langa brú og verður hún tengd núverandi vegakerfi með stuttum vegum beggja vegna. Fyrirhuguð framkvæmd er samtals um 920 m löng.

Nýja brúin verður í einu hafi, stálbitabrú með hallandi stálbogum. Brúin verður tvíbreið og lega hennar hönnuð fyrir 90 km/klst hámarkshraða.

Skaftárhlaupið í október 2015 gróf undan eystri stöpli núverandi brúar. sunnlenska.is/Páll Jökull Pétursson
Skaftárhlaupið í október 2015 gróf undan eystri stöpli núverandi brúar. sunnlenska.is/Páll Jökull Pétursson

 

Kanna þarf matsskyldu framkvæmdarinnar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum þar sem um er að ræða framkvæmd utan þéttbýlis á verndarsvæði. Fyrirhuguð framkvæmd liggur á stuttum kafla um Eldhraun sem eru jarðminjar sem njóta verndar samkvæmt náttúruverndarlögum.

Staðsetning fyrirhugaðrar framkvæmdar teiknuð gróflega inn á ljósmynd með grárri strikalínu. Ljósmynd/Snorri Zophaniasson, Veðurstofan 2015
Staðsetning fyrirhugaðrar framkvæmdar teiknuð gróflega inn á ljósmynd með grárri strikalínu. Ljósmynd/Snorri Zophaniasson, Veðurstofan 2015

 

Í tilkynningu frá Vegagerðinni kemur fram að hún telji að framkvæmdin hafi ekki í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfið vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Framkvæmdum verður hagað þannig að neikvæð áhrif þeirra verði sem minnst, mótvægisaðgerðum verður beitt og haft samráð við ýmsa aðila.

Heimild: Sunnlenska.is