Home Fréttir Í fréttum Efasemdir um vinningstillögu á Alþingisreit

Efasemdir um vinningstillögu á Alþingisreit

181
0
Mynd: Visir.is Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hefur efasemdir um vinningstillögu um nýbyggingu á Alþingisreit sem kynnt var í gær. Tillagan sé í mikilli andstöðu við það sem fyrir er á svæðinu og að frekar ætti að íhuga að reisa eftirlíkingu af eldri húsum.

<>

Tillaga frá Arkitektum Studio Granda fór með sigur af hólmi í hönnunarsamkeppni um nýbyggingu á Alþingisreit en Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi forseti Alþingis og formaður dómnefndar um bygginguna, greindi frá niðurstöðunni í gær. Dómnefndin var einhuga um valið en í niðurstöðu hennar kemur fram að tillagan styrki og fegri þau borgarrými sem fyrir eru við jaðra reitsins.

Virkar ekki vel á oddvita Sjálfstæðisflokksins
Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, segist hafa efasemdir um tillöguna.

„Þetta virkar á mig sem svolítið frekt í umhverfinu. Við erum auðvitað með í miðbænum að mörgu leyti fíngert klassískt borgarumhverfi. Við erum að fá þarna auðvitað mikið húsnæði þarna á Alþingisreitinn, við vitum það. Það verður að mínu mati að taka tillit til þess sem fyrir er. En það ber auðvitað að hafa í huga að ég á eftir að sjá heildartillöguna og átta mig á henni. En nei, þetta er ekki að virka vel á mig. Mér finnst þetta einhvern veginn vera svolítið svona, í mikilli andstöðu við það sem fyrir er á svæðinu,” segir Halldór.

Reisa eftirlíkingar af eldri húsum
Hann segir að í klassísku borgarumhverfi sem þessu megi vel leyfa sér að reisa eftirlíkingar af eldri húsum.

Ertu að vísa til Guðjóns Samúelssonar í því samhengi?

„Alveg eins, í sjálfu sér. Ekkert endilega þó. En ég segi það, ef að þú ert að hanna eitthvað inn í klassískt borgarumhverfi að þá getur það alveg passað að taka tillit til eldri hönnuða. Hvort sem að þeir heita Guðjón Samúelsson eða eitthvað annað. Mér finnst að stundum megi reisa eftirlíkingar af húsum sem fyrir eru,” segir Halldór.

Heimild: Visir.is