Home Fréttir Í fréttum Hótel og íbúðir á Byko-reitnum í Vesturbænum

Hótel og íbúðir á Byko-reitnum í Vesturbænum

233
0
Tillagan gerir ráð fyrir allt að fimm hæða háum byggingum. MYND/PLÚSARKITEKTAR

Allt að 70 nýjar íbúðir og hótel munu rísa á Byko-reitnum svokallaða í Vesturbænum samkvæmt breytingum á deiliskipulagi sem auglýst hefur verið af Reykjavíkurborg.

<>

Reiturinn afmarkast af Framnesvegi, Hringbraut og Sólvallagötu en þar eru nú bílastæði og verslun Víðis. Reiturinn er nefndur Byko-reiturinn þar sem Byko-verslun var um árabil í því húsnæði sem Víðir er í.
09-12-2016byko-reitnum-i-vesturbaenum1
Samkvæmt tillögunni er heildarbyggingarmagn 15.700 fermetrar, þar af 70 íbúðir á 3.250 fermetrum á tveimur til fjórum hæðum. Einnig er gert ráð fyrir gististað á einni til fimm hæðum á 4.300 fermetrum. Þá er gert ráð fyrir verslun og þjónustu í 450 fermetrum og svalir og þakgarðar verða 3.450 fermetrar.

Samkvæmt auglýsingu Reykjavíkurborgar er markmiðið með deiliskipulaginu að móta ramma um byggð sem styrkir heildarmynd borgarhlutans, fyllir í hálfkláraðar götumyndir og verður eftirsóknarverð til íbúðar. Áhersla er lögð á að nýbyggingar aðlagi sig eldri byggð og staðháttum.

Ekki er gerð krafa um að varðveita þurfi hús á reitnum sem fyrir eru og því má gera ráð fyrir að húsnæðið þar sem nú er verslun Víðis verði rifið.

Kynna má sér tillöguna að deiliskipulaginu hér en frestur til að gera athugasemdir rennur út 23. janúar 2016.

Heimild: Visir.is