Home Fréttir Í fréttum Umhverfismat Sprengisandsleiðar stöðvað

Umhverfismat Sprengisandsleiðar stöðvað

195
0

Vegagerðin hefur ákveðið að ekki verði lokið við mat á umhverfisáhrifum Sprengisandsleiðar að sinni. Eitt af markmiðum verkefnisins var að stilla saman legu vegar og háspennulínu einkum með tilliti til sjónrænna áhrifa. Í drögum að tillögu að matsáætlun liggur fyrir líklegasta lega vegar um Sprengisand. Ekki stendur til að taka ákvörðun um nýjan veg yfir Sprengisand í nánustu framtíð. Skipulagsstofnun sem hefur drög að tillögu til matsáætlunar til meðferðar var tilkynnt þetta óformlega fyrir nokkrum vikum.

<>

Forathugun á verkefninu var unnin sameiginlega af Vegagerðinni, Landsneti og Landsvirkjun að ósk þeirra síðarnefndu til að skapa heildaryfirlit og bera saman helstu valkosti.

Ljóst var í upphafi matsvinnunnar að vegaframkvæmdin væri ekki á dagskrá á næstunni og í fyrsta lagi eftir 10-20 ár. Markmiðið var því að tryggja veglínu á besta mögulega stað með tilliti til umhverfis, vegtæknilegra þátta og sjónrænna áhrifa hugsanlegrar háspennulínu.

Ekki er reiknað með að tillögur um framkvæmdir við nýja Sprengisandsleið verði lagðar fram í 12 ára samgönguáætlun 2015-2026.

Annað markmið Vegagerðarinnar var að kynna hugmyndir um nýjan veg um Sprengisand opinberlega, fá um hann umræðu og heyra viðbrögð almennings og hagsmunaaðila. Fyrst og fremst hefur verið kynntur lítillega uppbyggður vegur með bundnu slitlagi. Ástæðan er sú að vegur með malarslitlagi myndi endast mjög stutt á þessum slóðum og illmögulegt að halda við lítið uppbyggðum malarvegi. Vegur þarf einnig að standast kröfur um umferðaröryggi. Sprengisandsleið er skilgreind af stjórnvöldum í vegakerfinu sem stofnvegur um hálendi og eðli máls samkvæmt lokaður að vetri til þótt stofnvegur sé. Ekki hefur verið unnið með hugmyndir um heilsársveg eins og víða hefur heyrst.

Samráð hefur verið við Landsnet um undirbúning að mati á umhverfisáhrifum vegar og raflínu en ekki var gert ráð fyrir sameiginlegu mati. Því er ekki nauðsynlegt að Vegagerðin ljúki verkinu þar sem líta má á að í drögum að tillögu að matsáætlun sé búið að marka helstu veglínur sem til greina koma.

Vegagerðin telur að sú vinna sem fram hefur farið undanfarin misseri og samvinnan við Landsnet hafi nú þegar skilað góðum árangri. Líklegasta lega vegar um Sprengisand liggur fyrir þar sem meðal annars hefur verið tekið tilliti til lágmarks sjónrænna áhrifa af hugsanlegri háspennulínu. Hugmyndir hafa verið kynntar opinberlega. Skriflegum athugasemdum hefur verið safnað saman og munu þær nýtast við áframhaldandi stefnumótun um hálendisvegi og þá ekki síst Sprengisandsleið.

Drög að tillögu að matsáætlun eru til meðferðar hjá Skipulagsstofnun en þeirri vinnu verður hætt. Forstjóra Skipulagsstofnunar hefur óformlega verið tjáð þessi niðurstaða fyrir nokkrum vikum. Gert er þó ráð fyrir að ljúka þeim rannsóknum sem þegar eru hafnar því þær munu nýtast í framtíðinni ef til þess kemur að vinna hefjist aftur við mat á umhverfisáhrifum Sprengisandsleiðar.

Heimild: Vegagerðin