Home Fréttir Í fréttum Viðhaldsverkefni áformað við Hálslón í sumar hjá Landsvirkjun

Viðhaldsverkefni áformað við Hálslón í sumar hjá Landsvirkjun

207
0

Í sumar verður unnið viðhaldsverkefni við Hálslón þar sem gljúfurveggur undir yfirfallsrennu lónsins verður rofvarinn. Skrifað hefur verið undir samning við svissneska verktakafyrirtækið Gasser um gerð áhættumats, verkstjórn viðhaldsverkefnisins, ásamt stærstum hluta framkvæma.

<>

Unnið allan sólarhringinn yfir hásumarið

Áætlaður verktími er frá því í lok maí en vatn getur verið komið á yfirfall í lok júlí.  Öruggur verktími er því aðeins um 6 vikur til að tryggð séu verklok fyrir líklegt yfirfallsrennsli. Unnið verður allan sólarhringinn á björtum sumarnóttum.

Reistur verður krani á efri palli yfirfallsins og mun verkið verða unnið ofan frá, þar sem hluti bergveggsins verður styrktur með bergboltum, stálneti og sprautusteypu. Áætlað er að framkvæmdir hefjist í byrjun júní og standi fram yfir miðjan júlí.

Fyrirséð viðhald sökum margbreytileika bergsins

Frá hönnunarferli stíflumannvirkisins var vitað að nauðsynlegt myndi reynast að rofverja og styrkja gljúfurvegginn undir yfirfallinu eftir ákveðinn árafjölda.

Ástæða þess er að ólíkar bergtegundir eru undir yfirfallinu og er því rofþol bergsins mismikið. Þannig hefur rof verið mælt allt frá gerð mannvirkisins til að meta hvort berghrun sé farið að ógna undirstöðu yfirfallsins. Niðurstöður mælinga sýna að bergveggurinn hefur hopað og ef ekkert væri að gert myndi sú þróun halda áfram. Því er heppilegt að hefja aðgerðir til að tryggja öryggi yfirfallsrennunar.

Um mjög sérhæft svið er að ræða en eftir nokkra skoðun var ákveðið að ganga til samninga við svissneska fyrirtækið Gasser um aðkomu að verkinu en fyrirtækið hefur mikla þekkingu í hrunvörnum og bergstyrkingum t.d. í hlíðum Alpanna. Innlendir verktakar munu koma að öðrum verkþáttum.

Heimild: Lv.is