Home Fréttir Í fréttum Vill að beðið sé niðurstöðu „Rögnunefndar“

Vill að beðið sé niðurstöðu „Rögnunefndar“

52
0
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir það áhyggjuefni að framkvæmdir séu hafnar á Hlíðarenda við Reykjavíkurflugvöll. Nefnd um framtíð flugvallarins, kennd við Rögnu Árnadóttur, hafi ekki skilað niðurstöðum. Því sé óvíst hvort hún leggi til að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni eða ekki.

Í vikunni var byrjað að grafa fyrir nýjum vegi á Hlíðarenda og er það gert samkvæmt samstarfssamningi Valsmanna ehf, knattspyrnufélagsins Vals og Reykjavíkurborgar. Samkvæmt verkáætlun á að hefjast handa með fyrstu húsbyggingarnar um áramót. Á næsta ári á einnig að hefjast handa við fjórar aðrar byggingar. Undir lok næsta árs á að byrja á byggingum á lóð Reykjavíkurborgar. Þá hefjast framkvæmdir við knatthús, stúku og forbyggingu 2017.

<>

Mestri andstöðu hafa fyrirhugaðar byggingar á næsta ári mætt þar sem þær gera það að verkum að ekki verður lengur hægt að nota NA/​SV-braut Reykjavíkurflugvallar, sem kölluð hefur verið neyðarbraut.

Ákvörðun Reykjavíkurborgar um að veita framkvæmdaleyfi fyrir veglagningunni hefur vakið umræðuna um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar. „Ég óttast náttúrlega þessar framkvæmdir,“ segir Ragnheiður Ríkharðsdóttir alþingismaður. „Ég hefði svo sannarlega kosið að þetta framkvæmdaleyfi hefði beðið og Rögnunefndin svokallaða hefði skilað af sér, þá kæmi í ljós klárt og kvitt hvort hennar niðurstaða væri til dæmis sú að Reykjavíkurflugvöllur ætti að vera þar sem hann er og með þær brautir sem hann er, þá hefðu þessar framkvæmdir aldrei farið af stað.“

Það kynni að þýða að greiða þyrfti Valsmönnum skaðabætur. „En niðurstöður Rögnunefndarinnar liggja ekki fyrir og við vitum ekki hvort hún hugsanlega verður sú að Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera í þeirri mynd með þeim brautum sem hann er.“

Ragnheiður segir að verði niðurstaðan sú að að Reykjavíkurflugvöllur eigi ekki að vera áfram hljóti innanlandsflugið að fara til Keflavíkur. „Við förum ekki í mínum huga að setja hundruð milljóna í annan flugvöll hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er mjög fjarlægur draumur að mínu mati.“

Heimild: Rúv.is