Home Fréttir Í fréttum Miðbær Egilsstaða aftur á teikniborðið

Miðbær Egilsstaða aftur á teikniborðið

157
0
Mynd: landogsaga.is - ARKÍS
Bæjaryfirvöld á Fljótsdalshéraði eru nú að hefja vinnu við að endurskoða miðbæjarskipulag Egilsstaða sem þykir of stórhuga og ekki falla að þeim kröfum og hugmyndum sem nú eru uppi.

 Rauði dregillinn tónaður niður

<>

Núverandi skipulag sem samþykkt var í kjölfar hugmyndasamkeppni árið 2006 gerir ráð fyrir svokölluðum rauðum dregli sem yrði breið göngugata í gegnum miðbæinn. „Það má kannski segja að þær hugmyndir sem eru komnar gangi út að tóna aðeins niður þennan dregil og auka togs- og garðfílinginn í þessu skipulagi. Gera þetta örlítið manneskjulegra,“ segir Árni Kristinsson, formaður umhverfis- og framkvæmdanefndar Fljótsdalshéraðs.

Alltaf rok á göngugötunni?

Bent hefur verið á að rauði dregillinn myndi liggja samsíða Lagarfljóti og ríkjandi vindáttum. Meira skjól yrði á götunni yrði hún látin liggja þvert á ríkjandi vindáttir. Árni er ekki sama sinnis og vill tryggja skjól með öðrum hætti. „Menn eru enn að hugsa um að legan verði óbreytt en reyna að byggja upp skjól með byggingum og gróðri.“

Hann segir að rauði dregillinn hafi verið stór hugmynd og það hefði verið mikið mál að fara í þá framkvæmt alla í einu. Í núverandi skipulagi sem verður endurskoðað sé gert ráð fyrir stórum byggingum og einu bílastæðahúsi. Árni segir aðstæður hafa breyst og setja megi spurningamerki við hvort fólk vilji háreista byggð í miðbænum.  Bæði hafi andrúmsloftið breyst og einnig skipulagsreglur um hvernig bílastæðum sé útdeilt á svæði sem þessu.

Þjóðvegurinn í senn mikilvægur og þvælist fyrir

Eitt af því sem hefur hindrað að nokkuð gerist í uppbyggingu miðbæjarins er að Vegagerðin hefur ekki sett fé í að hnika þjóðvegi 1 til líkt og skipulagið gerir ráð fyrir en hann liggur nú um miðbæinn. „Á svæðinu frá gömlu Kaupfélagstorfunni og niður fyrir söluskála N1 er í gildandi skipulagi gert ráð fyrir að vegurinn flytjist vestur yfir á tún og það segir sig sjálft að við gerum hvorki eitt né neitt í kringum N1 í dag fyrr en vegurinn er færður,“ segir Árni.

Eitt af því sem taka þurfi afstöðu til sé hvort hreinlega eigi að hætta við að færa veginn til að liðka fyrir breytingum. „Það er alveg ljóst að miðað við óbreyttar forsendur verður stór hluti af þessu skipulagi í hálfgerðu limbói,“ segir Árni.

Hægja þarf á umferðinni

Fagradalsbraut liggur einnig um miðbæinn og niður á þjóðveg 1. Rætt hefur verið um að færa þyrfti umferð af þeirri götu til að gera miðbæinn vistlegri. Árni bendir hinsvegar á að umferðin um götuna sé í raun ekki mikil en að hugsa þyrfti um Fagradalsbrautina sem götu í þéttbýli en ekki þjóðveg í þéttbýli. Hann vill hægja á umferð um götuna með því að setja gróður og byggingar þétt upp að henni.

Hópur búinn að skila inn hugmyndum

Á síðasta fundi umhverfis- og framkvæmdanefndar var fjallað um hugmyndir þriggja manna hóps um endurskoðun deiliskipulags fyrir miðbæinn. Hópnum var meðal annars falið að kalla eftir upplýsingum frá þjónustuaðilum á Héraði. Nefndin samþykkti að hún væri hlynnt því að hugmyndirnar yrðu nýttar við endurskoðunina en telur ekki tímabært að birta þær enda eigi eftir að vinna úr þeim.

„Það er fullt af pælingum í gangi þannig að þetta gæti orðið hin skemmtilegasta vinna fyrir þá sem eru illa haldnir af áhuga á deiliskipulagi,“ segir Árni Kristinsson, formaður umhverfis- og framkvæmdanefndar Fljótsdalshéraðs.

Heimild: Rúv.is