Home Fréttir Í fréttum Enginn einn ber ábyrgð á þeim mistökum sem gerð hafa verið við...

Enginn einn ber ábyrgð á þeim mistökum sem gerð hafa verið við nýbyggingu Menntaskólans við Sund

499
0
Mynd: Ruv.is

Enginn einn ber ábyrgð á þeim mistökum sem gerð hafa verið við nýbyggingu Menntaskólans við Sund, segir Halldóra Vífilsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins. Unnið er að úrbótum og er stefnt að því að verkinu ljúki fyrir áramót.

<>

Margir gallar fundust á nýbyggingu Menntaskólans við Sund. Framkvæmdasýsla ríkisins ber ábyrgð á og hefur eftirlit með verkinu. Ríkiseignir fengu Verkfræðistofuna Eflu til að skoða bygginguna og gerði hún yfir 200 athugasemdir og benti á fleiri en 900 tilvik þar sem úrbóta er þörf. Svo virðist sem að mistök hafi verið gerð á öllum stigum, við hönnun hússins, byggingaframkvæmdir og frágang.

„Hver ber ábyrgð svona? Það fer eftir hver hluturinn er hönnunarmistök eru á ábyrgð hönnuða. Það geta verið fagleg atriði sem geta verið á ábyrgð – eins og ég veit að verktakar hafa verið að endurgera vissa hluti sem þeir hafa gert. Það er hægt að rekja öll þessi atriði og finna hver ber ábyrgð á þeim.”

Halldóra segir að ekki sé hægt á þessu stigi málsins að segja til um hvort meira hafi farið úrskeiðis í þessu verki en öðrum – því verkinu er ekki lokið.

„Það er þannig samkvæmt þessum skilmálum sem við vinnum eftir að verktaki hefur tækifæri til að bæta úr þessum athugasemdum sem við höfum gert og það er ennþá verið að vinna í þessu verkefni. Ég get svarað því þegar verkefninu er lokið en það eru all margar athugasemdir.”

Samkvæmt útboðslýsingu áttu verklok að vera í lok júní 2015 en nú er stefnt að því að verkinu ljúki fyrir áramót.

Rektor skólans hefur haft áhyggjur af brunavörnum því brunahólf eru óvirk. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur ákveðið að skoða húsnæðið að nýju. Halldóra segir að framkvæmdin sem snýr að öryggismálunum hafi reynst flóknari en séð hafi verið fyrir.

„Aftur það hefur bara því miður tekið lengri tíma að lagfæra þetta en eftir síðustu úttekt hefur verið unnið mjög markvisst að því að klára það sem útaf stóð. Við höfum fulla trú á því og samkvæmt okkar áætlunum þá trúum við því að það verði í þessari viku.”

Heimild: Ruv.is