Home Fréttir Í fréttum Akureyrarbær tekur upp reglur um keðjuábyrgð

Akureyrarbær tekur upp reglur um keðjuábyrgð

56
0
Akureyrarbær
Samþykkt var á fundi bæjarstjórnar Akureyrar á þriðjudag að í öllum samningum, sem sveitarfélagið gerir um verklegar framkvæmdir, verði kveðið á um svokallaða keðjuábyrgð verktaka. Þannig megi tryggja lögbundin réttindi allra þeirra starfsmanna sem að verki koma.

Ingibjörg Ólöf Isaksen, bæjarfulltrúi B-lista, bar upp tillöguna sem samþykkt var með 11 samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa. Tillagan var borin upp í kjölfar umræðu um kaup á þjónustu og vörum á vegum Akureyrarbæjar.

<>

Ítrekað hefur komið í ljós að undirverktakar í stórum verkefnum greiða starfsfólki sínu ekki laun í samræmi við gildandi kjarasamninga. Aðalverktaki í slíkum verkum ber þar enga lagalega ábyrgð þar sem íslensk lög um keðjuábyrgð eru ekki til. Með keðjuábyrgð er þá átt við að aðalverktaki í verklegum framkvæmdum beri ábyrgð á því að undirverktakar í sama verkefni fari að íslenskum kjarasamningum.

Bókun bæjarstjórnar Akureyrar með tillögunni er svohljóðandi:
Bæjarstjórn Akureyrar samþykkir að í öllum samningum verklegra framkvæmda, kaupa á þjónustu og vörum á vegum sveitarfélagsins, verði sett inn ákvæði um keðjuábyrgð þeirra seljenda sem sveitarfélagið semur við. Með þessu vill Akureyrarbær tryggja að allir starfsmenn, hvort sem það eru starfsmenn verktaka, undirverktaka eða starfsmannaleiga, njóti launa, trygginga og annarra réttinda í samræmi við gildandi kjarasamninga og lög hverju sinni. Aðalverktakinn yrði í verksamningi, gerður ábyrgur fyrir að tryggja kjarasamnings- og lögbundin réttindi allra starfsmanna sem að verkinu koma. Þetta verður gert til að koma í veg fyrir undirboð og óeðlilega samkeppnishætti á vinnumarkaði.

Heimild: Ruv.is